Dýrfirðingar bjóða uppá grillaðan steinbít og tónlist!

Um helgina verða hinir frábæru Dýrafjarðardagar haldnir á Þingeyri. Þar verður ótrúlega mikið af allskonar afþreyingu fyrir fólk á öllum aldri og í kvöld hefst fjörið, þegar gestum og gangandi er boðið upp á grillaðan steinbít að hætti landsliðsgrillara á staðnum. Hátíðin verður sett og fiskurinn byrjar að krauma á grillinu klukkan 19 við Bjarnaborg og á meðan spilar hinn óborganlegi snillingur Guðmundur Ingvarsson á nikkuna. Þegar allir hafa satt mesta hungrið taka Guðmundur Hjaltason og Stefán Baldursson við spileríinu, alveg þangað til klukkan hálf ellefu þegar 200.000 naglbítar taka við sviðinu og tralla sín bestu lög. Allir eru hjartanlega velkomnir og aðgangur er ókeypis.

Í kvöld klukkan 21 verða einnig stórkostleg áfengislaus skemmtun í félagsheimilinu en þá ætlar Úlfur Úlfur að spila fyrir stuðpinna á aldrinum 0-100 ára. Íbúar norðan- og sunnanverðra Vestfjarða eru eindregið hvattir til að sækja Þingeyri heim um helgina, því þar er sko nóg um að vera. Dagskránna má sjá í heild sinni hér.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA