Dylgjur á dylgjur ofan

Gunnar Gaukur Magnússon (t.v.), framkvæmdastjóri VesturVerks, og Pétur Guðmundsson (t.h.) í kaffi hjá hinum síðarnefnda í Ófeigsfirði. Þeir eru báðir í hópi landeigenda sem leigt hafa vatnsréttindi sín til VesturVerks vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar.

Undanfarnar vikur hefur umræðan um fyrirhugaða Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði stigmagnast. Því miður markast hún ekki öll af sannleiksást. Enn síður byggja stórar fullyrðingar alltaf á sérfræðiþekkingu í raforkumálum þótt sértæk þekking á öðrum og óskyldum sviðum vísinda sé mögulega fyrir hendi. Því er nauðsynlegt að bregðast við, benda á rangfærslurnar og reyna að stuðla að hófstilltri og upplýstri umræðu um nýtingu vatnsfalla á Íslandi, þeirra á meðal Hvalá.

Eru erlendar fjárfestingar óæskilegar á Íslandi?

Flest ríki heims leggja kapp á að laða til sín erlendar fjárfestingar og styrkja þannig samkeppnisstöðu sína. Alþingi Íslendinga hefur samþykkt stefnumörkun í þeim efnum og samtök atvinnulífsins telja að erlendar fjárfestingar styrki efnahagslíf landsins og bæti lífskjör landsmanna.

Á sama tíma leggja andstæðingar Hvalárvirkjunar allt í sölurnar til að tala niður þá erlendu fjárfestingu sem tengist verkefninu. Gert er tortryggilegt að erlendir fjárfestar skuli eiga rétt rúman helming í HS Orku, sem aftur er meirihlutaeigandi í VesturVerki, ísfirska fyrirtækinu sem áformar að reisa Hvalárvirkjun. Vert er að nefna að íslenskir lífeyrissjóðir eiga einnig aðild að VesturVerki í gegnum eignarhlut Jarðvarma í HS Orku.

Heimamenn hafa dregið vagninn frá upphafi

VesturVerk er í meirihlutaeigu Íslendinga. Annars vegar er það HS Orka (70%) og hins vegar Gláma fjárfestingar (30%) sem þrír Ísfirðingar eiga, bræður og frændi þeirra. Þremenningarnir eru upphafsmenn þess að virkja í Hvalá, þeir gerðu leigusamninga við alla landeigendur á svæðinu um nýtingu vatnsréttinda og þeir hafa dregið vagninn alla tíð með tilheyrandi áhættu og kostnaði.

HS Orka kom fyrst inn sem fjárfestir þegar ljóst var að virkjunin gæti orðið að veruleika og frekari kostnaðarsöm þróunarvinna yrði að eiga sér stað áður en lengra yrði haldið. Að öllu jöfnu ætti það að vera fagnaðarefni þegar stórhuga heimamenn fá til liðs við sig fjárfesta utan svæðis og jafnvel utan úr heimi. Það er ekki mikið um slíkt á Vestfjörðum. Því miður.

Virkjunin óvenju lítið inngrip í náttúruna

Mönnum verður tíðrætt um umhverfisáhrif virkjunarinnar enda verður aldrei hjá því komist að skerða land vegna slíkra framkvæmda. Það er aftur á móti leitun að vatnsaflsvirkjun af þessari stærð sem er jafn lítið inngrip í náttúruna og Hvalárvirkjun. Ekki verður hróflað við náttúruperlum svo sem fossum, giljum eða árfarvegum þótt vissulega muni rennsli minnka í þeim á ákveðnum tímum árs, líkt og gerist reyndar einnig í náttúrunni sjálfri. Þrjú uppistöðulón á háheiðinni ásamt stíflumannvirkjum verða helstu sjáanlegu ummerki virkjunarinnar, sem verður að öðru leyti öll neðanjarðar.

Með tilkomu virkjunarinnar kemst á þriggja fasa rafmagn og ljósleiðari í Árneshreppi. Umsvif í hreppnum verða umtalsverð á framkvæmdatíma og tekjur aukast. Vegasamgöngur batna verulega innan svæðisins til hagsbóta fyrir jafnt íbúa sem gesti þeirra og fleiri möguleikar skapast þannig í ferðaþjónustu. Helstu sérfræðingar landsins á sviði vatnsaflsvirkjana telja að varla sé til virkjunarkostur sem hafi jafn lítil neikvæð áhrif og Hvalárvirkjun borið saman við öll þau jákvæðu áhrif sem virkjunin mun hafa í för með sér þegar upp er staðið.

Rammaáætlun í uppnámi?

Hvalárvirkjun er í nýtingarflokki í rammaáætlun Íslands um vernd og orkunýtingu landssvæða. Nefnd sérfræðinga mat Hvalárvirkjun einu vatnsaflsvirkjunina á nýju og óvirkjuðu svæði sem bæri að nýta til orkuframleiðslu frekar en verndar. Alþingi samþykkti rammaáætlun 2 árið 2013 en samráðsferlið tók tíu ár með hléum. Rammaáætlun er málamiðlun. Þar er kveðið upp úr um það hvaða orkuauðlindir skulu nýttar og hverjar verndaðar. Ef nýtingarflokkur rammaáætlunar er að engu hafður gildir þá hið sama um verndarflokkinn?

Brýnt er að hafa í huga að Hvalárvirkjun fór í gegnum lögformlegt umhverfismat árið 2016 og engir lögbundnir umsagnaraðilar, sem Skipulagsstofnun kallaði til, gerðu athugasemdir við mat virkjunaraðila á umhverfisáhrifunum. Frá því að umhverfismatið fór fram hefur hönnun virkjunarinnar tekið töluverðum breytingum og allar í þá átt að draga verulega úr umhverfisáhrifum hennar.

Rangar fullyrðingar um raforkumál á Vestfjörðum

Háværustu gagnrýnendurnir halda því fram að Hvalárvirkjun geri ekkert til að tryggja raforkuöryggi á Vestfjörðum. Þetta er rangt. Hvalárvirkjun leggur grunninn að því að hægt sé að fara í þær betrumbætur á raforkuflutningskerfi fjórðungsins sem nauðsynlegar eru til að Vestfirðir standi jafnfætis öðrum landsvæðum í raforkumálum.

Ein og sér gerir Hvalárvirkjun ekkert gagn en með þeim tengingum sem henni fylgja skapast nýir möguleikar til uppbyggingar á raforkukerfi fjórðungsins. Tengi- og flutningsgjöld af Hvalárvirkjun munu standa undir stórum hluta þeirra kostnaðarsömu framkvæmda sem Landsnet þarf að ráðast í til að nútímavæða Vestfirði. Hið opinbera fer seint í slíkar fjárfestingar nema nýjar tekjur komi inn á kerfið.

Horfum á stóru myndina

Ef við horfum á stóru myndina er virkjun vatnsfalla til orkuframleiðslu ein umhverfisvænasta leiðin sem völ er á til að stemma stigu við notkun jarðefnaeldsneytis og hlýnun jarðar. Virkjun Hvalár er liður í því. Um þetta ættu umhverfissinnar allra landa að geta verið á einu máli. Á grundvelli sjálfbærrar nýtingar náttúrunnar ættum við því að geta sameinast um að tala upp innviðauppbyggingu á Vestfjörðum, þannig að íbúar þessa fámennasta landshluta Íslands fái setið við sama borð og aðrir landsmenn.

Birna Lárusdóttir

upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði

DEILA