Árnastofnun leitar upplýsinga um vestfirskar hefðir

Mörgum Vestfirðingum finnst ómissandi að týna aðalbláber á hverju hausti. Átt þú einhverjar hefðir í sambandi við berjatýnslu?

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vinnur um þessar mundir að verkefni um óáþreifanlegan menningararf á Íslandi. Verkefnið felst í uppsetningu vefsíðu sem mun kynna lifandi hefðir og venjur á Íslandi. Á vefsíðunni verður upplýsingum um lifandi hefðir safnað og miðlað til auka vitund um mikilvægi óáþreifanlegs menningararfs. Undir óáþreifanlegan menningararf flokkast allskonar venjur, hefðir, hátíðahöld, framsetning, tjáning og tungumál, þekking og færni sem samfélög eða hópar búa yfir. Hefðir geta verið lifandi í samfélögum og hópum eða átt undir högg að sækja þannig að þær þarfnist sérstakrar athygli eða verndar. Þær eru afar fjölbreyttar og geta átt rætur sínar í fortíðinni, verið miðlað mann fram af manni og þannig varðveist milli kynslóða, eða verið nýtilkomnar, segir á heimasíðu Árnastofnunnar.

Þátttaka hópa, félaga og fólks víða um land sem heldur við ákveðnum hefðum er því mjög mikilvæg fyrir verkefnið. Þetta er því kjörið tækifæri fyrir Vestfirðinga til að koma á framfæri ýmsum hefðum, venjum, siðum, hátíðahöldum og verklagi sem tíðkast á Vestfjörðum.

Sem dæmi um óáþreifanlegan menningararf er ýmislegt handverk eins og til dæmis þjóðbúningasaumur, vefnaður og meðhöndlun torfs. Lifandi hefðir eru einnig í venjum sem oft eru álitnar afar hversdagslegar og má meðal annars finna stað í prjónaskap, fluguhnýtingum, sundlaugarmenningu, matargerð, tónlistarflutningi og fleira.

Ef lesendur muna eftir skemmtilegum hefðum sem tíðkast í þeirra hópi eða svæði hvetjum við þá til að hafa samband við Vilhelmínu á netfangið vilhelmina.jonsdottir@arnastofnun.is.

Dagrún Ósk
doj5@hi.is

DEILA