Skemmtileg skosk sýning í Gallerí Úthverfu

Sýningin Af fjalli / Of a Mountain var sýnd helgina 16.-17. júní í Gallerí Úth-verfu á Ísafirði. Mynd: Julie Gasiglia.

Sýningin Of a Mountain eða Af fjalli eftir Kirsty Palmer var sýnd dagana 16. og 17. júní í Gallerí Úthverfu á Ísafirði. Kirsty Palmer vann verkin á meðan á þriggja mánaða dvöl hennar stóð yfir í gestavinnustofu ArtsIceland á Ísafirði. Hún býr og starfar í Glasgow og útskrifaðist með meistaragráðu frá Glasgow School of Art árið 2014. Verk hennar hafa verið sýnd í Skotlandi, Noregi og víðar á Íslandi. Þetta árið mun hún taka þátt í tveimur öðrum gestavinnustofum, annarsvegar á vegum Sambands íslenskra listamanna (SÍM) á Íslandi og í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði.

Kirsty vinnur verk sín bæði í tví- og þrívídd og ferðast þau yfir landamæri teikningar, skúlptúrgerðar og ljósmyndunar. Í þeim eru vangaveltur um efniviðinn, breytilegt ástand hans og vinnuferlið sjálft. Á sama tíma blandast inn í verkin hugmyndafræði landslags og afhjúpunar í ljósmyndafræðilegum skilningi. Af fjalli birtist sem ýmis form sem kanna þátt sjálfs efnisins. Þannig myndar verkið minnismerki sem er tileinkað landfræðilegu rými og ferli.

Frá sýningunni Af fjalli /Of a Mountain. Mynd: Julie Gasiglia.

Sýningin vakti athygli og áhuga blaðamanns BB og átti hún vel heima í þessu skemmtilega, tímabundna sýningarrými sem kjallarinn í Gallerí Úthverfu er. Kirsty er án efa listamaður sem vert er að fylgjast með í framtíðinni og er frábært að hún hafi heiðrað Ísfirðinga með nærveru sinni og vinnu síðustu vikur og mánuði.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA