Viltu bjarga laxinum? Leggðu þá flugustönginni

Svona hljóðar fyrirsögn hjá norska Aftenposten þar sem fjallað er um erfðasamsetningu villta laxastofnsins. Norsku vísindamennirnir Erik Slinde, professor emeritus hjá Norska miljö- og biovitenskapelige háskólanum í Ási, og Harald Kryvi, professor emeritus hjá Háskólanum í Bergen, hafa komist að þeirri niðurstöðu að það er ekkert til sem heitir upprunaleg gen í villta laxinum. Um 5% af honum syndir ekki aftur upp í sömu ár og hann klaktist út í, sem er í raun mjög mikilvægt til að koma í veg fyrir innræktun í ánum. Innræktun of skyldra fiska getur nefnilega verið töluverð ógn þegar lítið er um laxa í ám.

Sleppifiskur úr eldi syndir líka upp í ár til að hrygna og töluvert hefur verið fjallað um neikvæð áhrif þessa. En ef það finnast í raun engin upprunaleg gen í villta laxinum, er þá ekki jákvætt ef eldislax fjölgar sér með honum og líkurnar aukast á að lax finnist áfram í ánum þaðan sem hann er að hverfa?

Prófessor Erik Slinde, frá Háskólanum í Ási, segir að í sumum ám syndi mjög fáir laxar aftur til baka til þess að hrygna. Raunverulega ógnin við þá sé þess vegna frekar stangveiði. Ef fólk vill virkilega bjarga villta laxinum þá ætti það að henda flugustöngunum sínum. Sumir benda á að það megi sleppa veiddum laxi, en má ekki að segja að það flokkist undir dýraníð? Eða er það ekki dýraníð ef laxinn gefur ekki frá sér hljóð?

Þegar byrjað var að rækta eldisfisk í Noregi um 1970 var sérstök áhersla lögð á að vernda og passa upp á villta laxastofninn. Ræktunin hófst með laxi frá 40 mismunandi norskum ám og einni sænskri og ein kynslóð er fjögur ár að komast upp. Þetta þýðir að Norðmenn hafa alið upp tólf kynslóðir af löxum. Í byrjun var áherslan lögð á að rækta lax sem óx hratt, en vaxtarhraðinn stýrist af fjölda gena. Í seinni tíð hefur áherslan legið meira á að rækta lax með sterkt ónæmi gegn sjúkdómum og laxalús.

Í fréttinni segir að jafnvel þó laxinn sé margra milljóna ára gömul tegund, sem rataði til Noregs fyrir 10 þúsund árum síðan, þá finnist engin upprunagen í villta laxinum í dag. Þessi upprunagen finnist bara í ímyndunarafli stjórnvalda. Í sjónvarpsþáttaröðinni “Den fantastiske villaksen” er lögð mikil áhersla á að aflífa kynþroska norskan lax sem á að hafa upprunagen úr öðrum ám en þar sem hann veiðist eða hafi blandast eldislaxi. En segja má að þetta athæfi stuðli að innræktun laxins og komi í veg fyrir að hann fjölgi sér á þann hátt sem er honum eðlilegur, með þeim löxum sem synda upp í árnar.

Auk þessa hafa stjórnvöld, landeigendur og margir fleiri stundað það lengi að sleppa seiðum, án tillits til þess hvaðan hrognin komu upphaflega eða í hvaða ár seyðunum er síðan sleppt. Til að mynda hefur hið norska Havbeiteprogrammet sleppt mörgum milljónum seyða af margvíslegum uppruna, sem hafa síðan synt upp ýmsar ár. Rannsóknir hafa svo sýnt að seyðin bera gen frá Namsen, en gen þaðan hafa einmitt verið notuð í eldisfisk, en þykja aðeins óhentug ef fiskurinn kemur fyrst við í eldi áður en hann syndir upp í árnar, en ekki á hinn veginn.

Rannsóknir á hegðun, vexti, litum og fleiru, sýnir mun á milli villta laxins og eldislax. Þessi munur er þó alltaf túlkaður villta laxinum í vil og talið vera jákvæðir eiginleikar en neikvæðir hjá þeim ræktaða. Í rauninni er mjög auðvelt að snúa dæminu við og túlka þessa eiginleika eldislaxinum í hag og benda frekar á hvaða kosti hann getur gefið þeim villta ef þeir blandast.

Við lok fréttarinnar er sagt að sú eyðing sem á sér stað í dag á villta laxinum sé í raun mjög furðuleg. Hún flokkast nánast sem umhverfisspjöll þegar ekki er verið að stuðla að fjölbreytileika heldur fremur innræktun og sleppiveiðum. Vísindamennirnir segja að það sé kominn tími á að norska umhverfisráðið líti öðrum og ferskum augum á laxveiðiárnar og uppruna fiskanna. Stjórnvöld ættu einnig að láta stofnanir sínar marka stefnu varðandi genauppruna allra dýra, en ekki bara laxa.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA