Ungliðasveitin Sigfús tekur til starfa

Hressir meðlimir ungliðasveitarinnar.

Björgunarsveitin Dagrenning í Strandabyggð hefur nýlega endurvakið ungliðasveitina Sigfús. Það eru Björk Ingvarsdóttir og Jóhanna Rósmundsdóttir sem sjá um ungmenna starfið ásamt Pétri Matthíassyni. Ungmenni frá 8. bekk upp í 18 ára geta tekið þátt í starfinu. Nafnið Sigfús var valið af unglingasveitinni þegar hún var starfræk hér áður og heitir hún í höfuðið á Sigfúsi Ólafssyni sem var á sínum tíma læknir á Hólmavík.

Blaðamaður BB hafði samband við Björk, eina af umsjónarmönnum ungliðasveitarinnar, til að forvitnast um þetta spennandi verkefni. Hvað varð til þess að ungliðasveitin var endurvakin? „Við sem höfum verið virk í björgunarsveitinni höfum alltaf verið með þetta á bak við eyrað. Það hefur verið áhugi en okkur vantaði bara tíma og það að kýla á þetta. Það er auðvitað mikil undirbúningsvinna sem fylgir þessu. Svo í febrúar 2017 ákvað ungmennaráðið hérna í Strandabyggð að taka björgunarsveitina fyrir á ungmennaþingi. Þá tókum við á móti ungmennunum og héldum fyrirlestur um björgunarsveitina og kynntum starfið. Þá sáum hvað það var mikill áhugi og ákváðum að skella okkur í þetta út frá því.“ segir Björk hress.

Nú þegar hafa verið haldin tvö vinnukvöld en þau verða haldin hálfsmánaðarlega og miðast starfsemin við skólaárið: „Það er búið að ganga rosalega vel og vera mjög gaman. Krakkarnir eru mjög áhugasamir,“ segir Björk: „Fyrsta kvöldið komu 10 krakkar og svo 8. Við erum búin að fara í ýlaleit og kenna þeim að snjóflóðaýla. Svo erum við búin að gera hnúta og síðast fórum við í sig-græjurnar og leyfðum þeim að fá tilfinningu fyrir siginu með því að síga í tröppunum á Björgunarsveitarhúsinu. Það tóku allir þátt og prófuðu, þetta er rosa gaman.“ bætir Björk við.

Það er greinilega nóg fram undan hjá ungliðasveitinni: „Næst ætlum við að fara í fyrstu hjálp, setja á bakbretti og fleira í þeim dúr. Svo ætlum við að halda áfram í ýlaleit og sigi og svo er planið að taka eina sjóæfingu á bátnum. Við ætlum líka að fara í gönguferðir og gera leitaræfingar. Ég mun örugglega fá einhverja til að hjálpa mér í æfingum með leitarhund sem er í þjálfun. Það er bara svo margt sem við ætlum að gera. Svo langar okkur að leyfa krökkunum að búa til lógó fyrir sveitina. Láta þau annað hvort koma með hugmyndir eða jafnvel búa það til sjálf.“ segir Björk og það er ljóst að það verður mikið fjör.

Dagrún Ósk

dagrun@bb.is

DEILA