„Það skiptir miklu máli fyrir svæðið að hafa góðan miðil“

Sem betur fer er ærslabelgur á Tálknafirði því nýji sveitarstjórinn þar veit fátt betra en hoppa aðeins eftir vinnu. Aðsend mynd.

Bryndís Sigurðardóttir er mörgum Vestfirðingum kunn, að minnsta kosti þeim sem hafa heimsótt vef BB reglulega. Bryndís var ritstjóri og eigandi BB þar til nýlega, er hún seldi vefinn og hóf vegferð í nýjum landshluta. Bryndís bjó um fimm ára skeið á Flateyri, en er nú flutt hinum megin á landið. „Ég er flutt á Kópasker,“ segir Bryndís, en fyrir þá sem ekki vita er Kópasker lítið þorp á Norðausturlandi. Það er því varla hægt að fara mikið lengra frá Vestfjörðum. „Ég hafði aðeins einu sinni komið á Kópasker áður en ég flutti, en ég kann mjög vel við mig hér. Það var hlýlega tekið á móti mér, rétt eins og þegar ég flutti á Flateyri.“ Bryndís rekur ættir sínar hvorki norðaustur né vestur, svo hún kom alveg ný á báða staði. Hún segir að sér hafi strax liðið vel á Flateyri. „Mér líður svo sem alltaf vel, svo það er kannski ekki að marka,“ segir Bryndís og hlær.

En hvað dró hana til Kópaskers? „Ég tók við starfi verkefnastjóra í Brothættri byggð í Öxarfjarðarhéraði, verkefnið er byggðaþróunarverkefni á vegum Byggðastofnunar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og ég er ráðin til tveggja ára.“ Bryndís tók við starfinu síðastliðin áramót, en fyrsta „Brothættar byggðir“ verkefninu var hleypt af stokkunum árið 2012 á Raufarhöfn. Eins og fram kemur á vef Byggðastofnunar var verkefnið sett af stað með það í huga að leita lausna á bráðum vanda vegna fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi. Með meiri fjárveitingum hafa fleiri byggðafélög bæst í hópinn, þar með talin Þingeyri, en 8 byggðalög eru eins og er í verkefninu, Öxarfjarðarhérað, þar sem Bryndís er verkefnastjóri, Hrísey, Grímsey, Árneshreppur, Borgarfjörður Eystri, Þingeyri, Skaftárhreppur og Breiðdalshreppur. Aðspurð að því hvað felist í starfinu segir Bryndís að starfið sé mjög fjölbreytt. „Starfið felst í allskonar ráðgjöf og stuðningi með íbúum, til dæmis aðstoða við gerð viðskiptaáætlana og svo bara mikill lobbíismi. Það þarf að passa að hér sé grunnþjónustu fyrir samfélagið, eins og t.d. að hér sé póstþjónusta, banki og hitaveita. Þetta snýst um að halda þjónustu í samfélaginu, standa vörð um það sem er og reyna að sækja meira.“ Bryndís segir að nýja starfið leggist vel í sig. „Þetta er mjög skemmtilegt starf. Ég hef alltaf haft áhuga á atvinnumálum og byggðamálum, svo ég er í draumastarfinu.“

Bryndís starfaði sem ritstjóri BB í rúm tvö ár en áður en hún kom vestur rak hún um árabil bókhaldsþjónustu í Hveragerði þar sem hennar rætur liggja. Hún starfaði einnig um tíma hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Arctic Fish og sem fjármálastjóri hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, hún kemur því með mikla reynslu í farteskinu í verkefni Brothættra byggða. „Já, það var aldeilis lærdómsríkt að starfa hjá Heilbrigðisstofnuninni og staðan eins og hún er þar núna kemur mér ekki á óvart. Hjá stofnuninni starfar gott fólk, frábært fagfólk og það sinnir sínum störfum af mikilli fagmennsku, vandamálið bæði fyrr og nú er slakur stjórnunarstíll og vonandi tekst núna að ráða stjórnanda sem hefur hæfileika í mannlegum samskiptum og sýnir starfsfólkinu sínu virðingu og traust, það á það svo sannarlega skilið.“

Þegar Bryndís er innt eftir því hvað hafi verið áhugaverðast við starf ritstjóra BB segir hún að það hafi verið mjög margt. „Mér fannst þetta mjög mikilvægt starf. Það skiptir miklu máli fyrir svæðið að hafa góðan miðil. Svo var líka gaman að kynnast svona mörgu fólki. Samstarfsfólkið var dásamlegt og ég sakna þeirra Önnsku, Halla og Smára mikið. Þessi hópur náði vel saman og umræður á vinnustaðnum um landsins gagn og nauðsynjar oft líflegar, sérstaklega sakna ég samræðna við Smára en hann hefur þann hæfileika að benda á aðra hlið og er aldrei svona „mainstream“ í skoðunum. Að öðrum starfsmönnum ólöstuðum var hann mér dýrmætur stuðningur, án hans hefði ég verið í vondum málum.“ Þar á Bryndís við Smára Karlsson, sem starfaði allan tímann með Bryndísi hjá BB. „Mér fannst eiginlega skemmtilegast að gera blaðið, þ.e. útgefna blaðið, það var svo mikil sköpun í því og það var mikill missir af því þegar blaðið hætti en það var ekkert við því að gera, mér tókst ekki að láta það bera sig.“ Bryndís talar um að það sem hafi verið erfiðast við að reka fjölmiðil í litlu samfélagi hafi verið að fara í leiðinleg mál. „Það var leiðinlegt að hjakkast í einhverju sem gerir fólk reitt. Það er engu að síður hluti af því að vera fjölmiðill, fjölmiðill verður að fara í öll mál, skrifa um allt það sem fólk þarf að heyra. Fólk verður að geta treyst því að fjölmiðill segi frá því sem nauðsynlega þarf að heyrast, þessi gríðarlega krafa um jákvæðni og skemmtilegheit er lýðræðinu hættuleg.“

En geta Vestfirðingar átt von á því að rekast á Bryndísi á Vestfjörðum á næstunni? „Ég á ennþá húsið mitt á Flateyri og hef engin plön um að selja það. Að öðru leyti hef ég ekki hugmynd um það, ég gæti allt eins verið komin til Kuala Lumpur áður en við er litið. Ég get samt vel hugsað mér að koma vestur aftur, mér finnst ég eiga heima þar.“ Segir þessi orkumikla kona, sem virðist svo sannarlega óhrædd við að grípa tækifærin og láta rödd sína heyrast.

Margrét Lilja
milla@bb.is

DEILA