Skráning á hreinsunarhelgi á Hornströndum er hafin

Áhugamannafélagið Hreinni Hornstrandir leita eftir hraustum sjálfboðaliðum í hreinsunarferð á Hornstrandir dagana 22. – 24. júní. Þetta er í fimmta skiptið sem farið er í slíka hreinsun og í ár verða fjörur Bolungavíkur á Ströndum hreinsaðar. Reiknað er með um 40 manna hópi til verksins og verður siglt frá Ísafirði til Bolungavíkur seinnipart föstudags og þá strax hafist handa við að taka til. Gist verður í tjöldum eða húsi sem fengið hefur verið að láni frá Reimari Vilmundarsyni.

Á laugardag og sunnudag verða fjörur hreinsaðar og rusl ferjað út í varðskip. Um miðjan dag á sunnudeginum verður svo siglt heim með varðskipinu og reiknað með að koma til Ísafjarðar á sunnudagskvöldinu. Boðið verður upp á morgunmat, léttan hádegisverð og kvöldverð, en þátttakendur taka með sér nesti til að maula milli mála.

Áhugamannafélagið Hreinni Hornstrandir var formlega stofnað í ágúst 2017 en aðstandendur félagsins hafa skipulagt hreinsunina undanfarin ár. Styrktaraðilar þessa verkefnis og þeir sem gera það gerlegt eru: Landhelgisgæsla Íslands, Umhverfisstofnun, Ísafjarðarbær, Reimar Vilmundarson, Sjóferðir Hafsteins og Kiddýjar, Borea Adventures, Gámaþjónusta Vestfjarða, Vesturverk, Aurora Arktika og Vesturferðir.

Þeir sem eru klárir í mikla og erfiða, en skemmtilega vinnu við að hreinsa Hornstrandafriðlandið um Jónsmessuhelgina er bent á að senda umsóknir á netfangið upplysingafulltrui@isafjordur.is. Undanfarin ár hafa færri komist að en vildu enda áhuginn mikill og sætaframboð takmarkað. Reynt verður að svara umsóknum svo fljótt sem unnt er og setja fólk á biðlista þegar sætafjöldinn er fullnýttur.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA