„Skipulagsvald á Strandsvæðum ætti að fela sveitarfélögum“

Á 1015. fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, sem haldinn var 30. apríl, var tekin fyrir umsögn skipulags- og mannvirkjanefndar um frumvarp til laga um skipulag haf- og strandsvæða. Skipulags- og mannvirkjanefnd hafði áður fjallað um frumvarpið en umsagnarfrestur er til 4. maí. Nefndin vísaði í bókun bæjarstjórnar frá 1. júní 2017 þar sem segir orðrétt: „Ísafjarðarbær telur að skipulagsvald yfir strandsvæðum ætti að fela sveitarfélögum og skilja það þannig frá skipulagsvaldi yfir hafsvæðum sem ætti að vera á hendi ríkisvaldsins. Slíkt fyrirkomulag er í eðlilegu og nauðsynlegu samhengi við skipulagsvald sveitarfélaga og styrkir um leið staðbundna sjálfbæra samfélagsþróun, náttúruvernd, atvinnulíf, og atvinnuþróun.“

Nefndin bendir jafnframt á að ef frumvarpið verður að lögum missa sveitarfélögin tækifæri til valdeflingar og möguleika á þátttökulýðræði því virkja mætti frumkvæði heimamanna ef verkefnið væri fært nær þeim. Sveitarfélög myndu nálgast þetta verkefni á mismunandi hátt en á sama grunni og því yrði lærdómsferlið hratt og árangursríkt.

Svo segir ennfremur: „Víða um heim eru strandsvæðin innan einnar sjómílu utan við grunnlínu á skipulagsvaldi sveitarfélaga – þannig er það í Noregi. Í Svíþjóð og Finnlandi eru skipulagsmörk sveitarfélaga 12 sjómílur utan grunnlínu. Að auki miðast Vatnatilskipun Evrópusambandsins við eina sjómílu utan við grunnlínu. Það er tæpast nokkur ástæða til þess fyrir Íslendinga að halda í flókna og svifaseina miðstýringu að svo miklu leyti sem hægt er að greiða úr málum með skipulagsvaldi sveitarfélaga og því íbúalýðræði sem því fylgir. Gera má ráð fyrir að skipulagsmál yrðu skilvirkari, heildstæðari og einfaldari ef skipulagsvald á strandssvæðum yrði fært til sveitarfélaga.“

Áhugasamir geta nálgast bókunina á þessari slóð: https://www.isafjordur.is/is/stjornsysla/stjornsyslan/fundargerdir/baejarrad/768
En bæjarráð fól bæjarstjóra að gera umsögn við frumvarpið og leggja til við bæjarstjórn.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA