Sævangshlaup Margfætlnanna

Hlaupahópurinn Margfætlurnar á Hólmavík.

Undanfarin þrjú ár hefur hlaupahópurinn Margfætlur í Strandabyggð hlaupið svokallað Sævangshlaup í kringum 1. maí. Þá er hlaupið frá Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík út í félagsheimilið Sævang, þar sem Sauðfjársetur á Ströndum er til húsa. Hlaupaleiðin er um 11 km. löng. Í Sævangi gæða hlaupararnir sér svo á súpu og kaffi.

Ingibjörg Emilsdóttir stofnaði hlaupahópinn Margfætlur árið 2012. Blaðamaður BB heyrði í henni til fræðast meira um þennan forvitnilega félagsskap: „Það var hálf sjálfselsk ástæða fyrir því að hlaupahópurinn var stofnaður. Ég hætti alltaf að hlaupa yfir veturinn þannig ég ákvað að stofna hlaupahóp til að fá fleiri með mér, til að hlaupa yfir veturinn. Það tókst bara ágætlega en hópurinn var stofnaður í samstarfi við íþróttafélagið Geislann til að byrja með. Ári seinna fékk hópurinn nafn og þegar við fórum út til Þýskalands síðasta haust að hlaupa í þriggja landa maraþoni fékk hann lógó. Þá er hann orðinn svolítið svona alvöru,“ segir Inga hress. Þriggja landa maraþonið hefst í Þýskalandi og þaðan er hlaupið yfir til Austurríkis og Sviss. Inga segir ferðina hafa verið mjög skemmtilega.

Það eru rúmlega 10 einstaklingar virkir í hlaupahópnum og Inga segir að stemmningin sé góð. Undanfarið hafa þau mest stundað morgunhlaup fyrir vinnu. Hún segir Sævangshlaupið vera orðið að skemmtilegri hefð: „Þetta er búið að vera í þrjú ár þannig þetta er bara komið til að vera. Við byrjum sumarið á þessu. Þetta er eiginlega svona mælikvarði, á hvernig maður kemur undan vetri,“ segir Inga og hlær.

Dagrún Ósk

DEILA