„Mér líður alls ekki vel þegar það er óvissa um flug“

Marta, Ágúst, Ívar Hrafn og Andri Pétur

Hreyfanleiki er eitt af lykilorðum 21. aldarinnar og fólk í dag gerir miklar kröfur um góðar samgöngur, bæði í lofti og á landi. Sumir vinna annarsstaðar en þeir búa, sumir eiga fleiri en eitt heimili og fjölmörg börn eiga foreldra í sitt hvorum landshlutanum. Tvö þessara barna eru þeir Andri Pétur Zakarías og Ívar Hrafn, sem búa allajafna á Flateyri með móður sinni, stjúpföður og litlu systur en dvelja eins oft og þeir geta hjá föður sínum og stjúpmóður á Egilsstöðum. Það gefur auga leið að regluleg ferðalög landshorna á milli á Íslandi eru ekkert grín fyrir börn svo foreldrarnir reyna að skipuleggja pabbaheimsóknirnar í kringum skólafrí og þannig að sem minnst álag sé á börnunum. Þegar flugi frá Reykjavík til Ísafjarðar er frestað oft eða það jafnvel fellt niður eykur það álagið á börnunum, minnkar samvistir þeirra við foreldrið sem það er á leið til, og minnkar jafnvel löngun þeirra til að ferðast til þess foreldris. Þetta er mjög slæmt á allan hátt og í raun óskiljanlegt að ekki sé búið að færa flugvöllinn á Ísafirði fyrir löngu.

„Á veturna hittumst við á svona sex vikna fresti í Reykjavík eða á Egilsstöðum. Þegar synir mínir koma austur þá þurfa þeir fylgdarmann í Reykjavík, en ég er svo heppinn að foreldrar mínir búa þar og hafa hjálpað okkur mikið,“ segir Ágúst Ívar Vilhjálmsson, faðir drengjanna Andra Péturs og Ívars Hrafns. Sunnudaginn 6. maí áttu þeir bræður að fljúga vestur en eftir ítrekaðar seinkanir, fór flugvélin í loftið, til þess eins og að fljúga yfir Ísafjarðardjúp og svo aftur suður.

„Flugfélagið miðar bara við að hafa sem fæsta hausa í frestun og þess vegna verða þeir sem áttu að fljúga vestur með sunnudagsfluginu að bíða eftir næsta lausa flugi. Það var flug á mánudagsmorgun en sú vél var full og til þess að þurfa ekki að telja fleiri manneskjur með þeim sem lenda í frestun, þá þurfa hinir frá deginum áður að bíða þangað til seinnipart á mánudaginn. Það var ekki send aukaflugvél um morgunin og fyrir drengina þýðir þetta að þeir missa úr skóla og tómstundum, fyrir utan hversu leiðir þeir eru yfir að komast ekki heim til sín og hversu svangir og jafnvel hræddir þeir voru í fluginu sem var snúið við,“ segir Ágúst.

„Sem betur fer eru amman og afinn í Reykjavík ekki að vinna og geta hjálpað okkur því annars væri þetta eiginlega ekki mögulegt. Það sem er kannski óþægilegast er að það eru engar upplýsingar á flugvellinum. Seinkanir eru tilkynntar en fólk er ekki upplýst hvernig staðan er, af hverju er verið að fresta fluginu. Ég var í raun búinn að gera ráð fyrir að flugvélinni yrði snúið við og það gerðist. Þá voru börnin búin að bíða og vera einn og hálfan tíma í loftinu og auðvitað orðnir mjög svangir þegar þeir lentu aftur. Það er hringt í okkur 20 mínútum áður en vélin lenti aftur og þá þurfa bara allir að hlaupa til. Þetta yrði töluvert ferðalag ef flugvöllurinn yrði fluttur til Keflavíkur, þá þyrfti fólk eiginlega bara að bíða í Keflavík þangað til vélin er lent fyrir vestan.“

„Mér líður alls ekki vel að vita af þeim þegar það er óvissa um flug og þeir þurfa að bíða einhversstaðar. Komast kannski frá Egilsstöðum til Reykjavíkur en sitja fastir þar. Við erum aldrei örugg um að þeir komi og aldrei örugg um að þeir komist vestur aftur. Við höfum hætt við að láta strákana ferðast austur þegar veðurútlit var slæmt og áður en flugfélagið byrjaði að fresta. Bæði til að hlífa þeim við þessari óþolandi bið og óvissu en líka til að hlífa þeim við erfiðu flugi. Ég hef búið á Ísafirði og aðflugið þar er það ógeðslegasta sem ég hef lent í. Veturinn í vetur hefur samt verið ágætur en til dæmis um jólin 2015 þá áttu Ívar Hrafn og Andri að fara vestur milli jóla og nýárs, en það var ekki flogið frá Reykjavík í 5 daga svo við enduðum á að senda þá aftur austur, svo þeir væru allavega með öðru foreldri sínu yfir áramótin. Þá var boðið upp á rútuferð vestur en við vildum alls ekki senda 8 og 9 ára gamla drengi eina í rútu um hávetur. Síðan þá höfum við ekki tekið áhættuna á að þeir sitji einhversstaðar fastir yfir hátíðarnar og þeir eru alltaf hjá móður sinni yfir jól og áramót. Einfaldlega til að hlífa þeim við erfiðum ferðalögum og bið. En þetta eru auðvitað mjög erfitt fyrir okkur feðgana, að geta ekki alltaf hittst þegar okkur langar og stundum líður mjög langur tími á milli,“ segir Ágúst að lokum.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA