Lengd ganganna komin yfir 2 km í viku 17

Í viku 17 fór lengd ganganna yfir 2 km og enn var slegið met í greftri ganganna þegar grafnir voru 105 m á einni viku sem er, eftir bestu vitneskju undirritaðs, met í greftri vegganga á Íslandi. Heildarlengd ganganna í lok viku 17 var 2.026,5 m sem er 38,2 % af heildarlengd ganganna.

Í vikunni var grafið í venjulegu sniði eftir að lokið var við útskot E í síðustu viku. Í lok vikunnar hvarf seinna setlagið, sem hefur fylgt okkur undanfarnar vikur, upp úr þekjunni á göngunum og er nú grafið eingöngu í basalti. Allt efni úr göngunum hefur verið keyrt beint í vegfyllingar frá munna ganganna og áleiðis niður að Hófsá.


Í Dýrafirði var haldið áfram með vinnu við forskeringar.

Á meðfylgjandi myndun má sjá fyllingarvinnu á veginum milli munna og Hófsár, rauða setlagið í þekjunni og vinnu við forskeringar í Dýrafirði.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA