Leggja til að gerðar verði vistgötur á Ísafirði

Umhverfis- og framkvæmdanefnd Ísafjarðarbæjar fundaði þann 24. apríl síðastliðinn. Þar var lagt fram minnisblað Ralfs Trylla, umhverfisfulltrúa, frá 13. apríl, varðandi vistgötur innanbæjar á Ísafirði. Þar er gert ráð fyrir því að Smiðjugata, Þvergata og Tangagata að Austurvegi verði vistgötur, en nefndin fól tæknideild að kynna hugmyndina fyrir íbúum þessara gatna. Samkvæmt minnisblaðinu og punktum frá Eddu Ívarsdóttur hjá Reykjavíkurborg eru vistgötur bílfærar götur, en umferðin er hæg og gangandi og hjólandi vegfarendur eru rétthærri en bílar. Keyrandi og hjólandi vegfarendur mega þó ekki fara hraðar en gangandi fólk og þurfa að víkja fyrir gangandi umferð. Fá bílastæði eru til staðar en gróður og dvalarsvæði við götuna aukin. Göturnar sem koma til greina eru einstefnugötur án gangstétta og þess vegna tilvaldar í verkefnið samkvæmt minnisblaðinu. Áætlaður kostnaður yrði 870 þúsund krónur í heildina sem færu mestmegnis í skilti og uppsetningu þeirra.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA