Krían er mætt í Arnarfjörð

Krían hefur látið á sér kræla.

Á Þingeyrarvefnum kemur fram að krían hafi mætt í Arnafjörðinn, þann 9. maí. „Þau ánægjulegu tíðindi urðu í dag í æðarvörpunum á Eyri í Arnarfirði og Auðkúlu, að stór hópur af kríum mætti á svæðið. Frú Guðrún (og frú Grelöð ábyggilega líka) varð vitni að þessum atburði.“

Fram kemur að krían hafi mætt óvenju snemma síðastliðið ár, en þá sáust fyrstu kríurnar í Arnarfirði 3. maí. „Árin þar áður mætti þessi orustuþota meðal fugla 8. og 9. maí í Arnarfjörð. Og má nú vargurinn eins og lágfóta, minkur, krummi gamli, hettumávur, veiðibjalla og assa fara að vara sig. Krían ver nefnilega æðarvörpin með kjafti og klóm, en þar verpir hún nefnilega sjálf líka. Enginn er ábyggilega fegnari komu hennar en æðarfuglinn, fyrir nú utan mannskepnuna, sem er að basla við að verja æðarvörpin. Semsagt: 35,000 kílómetra flug frá Suðurskautslandinu ef að líkum lætur. Þessi litli fugl. Ótrúlegt.“

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA