Hvað er svo glatt sem góðra manna fundur

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Umræður um Hvalárvirkjun tekur á sig ýmsar myndir. Nú er heitasta umræðuefnið mæting á fyrirlestur læknanna Tómasar og Ólafs á Ísafirði um ósnortin víðerni á Íslandi, þar sýndu þeir ljósmyndir og drónaskot frá miðhálendi Íslands en einnig af fossunum og víðernunum upp af Ófeigsfirði á Ströndum, þar sem áform hafa verið uppi um að reisa Hvalárvirkjun.

Þessi fyrirlestur var haldinn rétt fyrir stóra viðburðahelgi á Ísafirði og því ekki margir sem gáfu sér tíma til að mæta. Ekki efast ég um að þetta hafi verið áhugaverð myndasýning af fallegri náttúru Íslands og tímanum ekki illa varið í að sitja þennan fyrirlestur. Tómas læknir fer mikið yfir tómlæti Vestfirðinga og mætingu þeirra og vill meina að það ríki upplýsingaþoka á Vestfjörðum.

Þar held ég að það sé vanmat um að ræða. Vestfirðingar eru upp til hópa miklir náttúrunnendur enda lifa þeir náið með henni allan daginn og alla daga ársins. Við njótum hennar, lútum, umberum og nýtum. Vestfirðingar eru vel upplýstir um stöðu sína og samfélag og þurfa ekki að sitja fyrirlestur inn í dimmum sal til að sannfærast um þær náttúrperlur sem landið geymir né hvernig við viljum lifa í okkar samfélagi.

Sjálfbært samfélag

En Vestfirðingar horfa líka á heildarmyndina. Sjálfbært samfélag þarf að þróast í takt við nútímaþarfir atvinnulífs, mannlífs og samfélagsgerðar. Horfa þarf til framtíðar byggja upp innviði sem verða grunnstoðir samfélagsins. Þar hefur fjórðungurinn setið á hakanum. Ef við horfum til framtíðar þarf að taka nokkur stór skref í samgöngumálum og auka raforkuöryggi. Það virðist sem framkomnar hugmyndir í þeim efnum færi fólk í flokka sem skipa sér sess á sitthvorum endanum í umræðunni og ekkert ljós nær endana á milli í þeim skoðunum.

Það er þreytandi og lýjandi að sitja undir þeim áróðri að Vestfirðingar séu ekki færir til þess að taka ákvarðir um innansveitarmálefni, þeir séu of fáir til að stjórna sínu nærumhverfi, vaði um í upplýsingaþoku eða hafi hreinlega ekki smekk fyrir fallegri náttúru. Ætli þeir sem hafa hæðst og telja sig einlæglega náttúruverndunarsinna séu fleiri en þeir sem búa á Vestfjörðum? Skal ekki segja en það eru alla vega margir sem tilbúnir eru að fórna fé og tíma til að berja á hendur okkar þegar við viljum grípa í bakkann sem skilar okkur áfram uppbyggingu sjálfbærs samfélags.

Raforkuöryggi

Það væri nær að horfa á heildarmyndina ekki taka einhverja þætti út og afbaka. Hvalárvirkjun var skipuð í orkunýtingaflokk 2. áfanga Rammaáætlunar og eins og segir í lokaskýrsla verkefnisstjórnar 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar frá árinu 2016 er rökstuðningur með flokkun hennar að það sé sameiginleg niðurstaða fagaðila að Hvalárvirkjun væri eini raunhæfi virkjunarkosturinn á Vestfjörðum sem skipti verulega máli í raforkuöryggi í fjórðungnum. Til þess að svo verði að veruleika þurfa stjórnvöld að þrýsta á að flutningskerfi Landsvirkjunar sjái til þess.

Þessi virkjunaráform hafa staðið lengi til og hefur náð í gegn í löngu ferli, bæði skipulagsaðila og margra umsagnaaðila.

Græn orka

Þeir sem eru á móti þessari virkjun draga fram dramatísk og tilfinnanleg rök fyrir máli sínu. Draga upp augljós atriði eins og fjölda starfmanna við virkjunina og telja vatnsföll hverfa eins og dögg fyrir sólu. Það skapast ekki mörg störf við virkjunina sjálfa, það eru engin ný tíðindi en áhrif hennar getur leitt til fjölbreyttar atvinnuuppbyggingar í fjórðungum.

Til raforkuframleiðslu nýtum við vatnsaflsvirkjanir og framleiðum rafmagn sem getur talist græn orka. Í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er horft til Parísarsamkomulagsins og jafnvel stefnt að ganga lengra og gera ráð fyrir kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Stór þáttur í að ná því markmiði er græn orka og orkuskipti sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Fórnarkostnaður

Til þess að leggja grunn að sjálfbæru og umhverfisvænu samfélagi þá verður einhverju fórnað. Hluti af vatnsafli fossa eða landi undir byggð og samgöngumannvirki. Það eru engin sannindi á Íslandi. Hvar skal nema staðar og hvar skal forgangsraða? Það er komið að þeirri spurningu sem ætti að vekja nýjan umræðuvettvang. Viljum við áframhaldandi byggð á Vestfjörðum?

Halla Signý Kristjánsdóttir Alþingismaður og náttúrverndarsinni

 

DEILA