Hringlandaháttur á kostnað íbúanna

Sundhöllin á Ísafirði.

Í upphafi þessa kjörtímabils var ekkert að heyra á meirihlutanum að til stæði að byggja knattspyrnuhús á Torfnesi, né að til stæði að huga að framtíðarskipulagi þeirra mála á svæðinu. Í- listinn hafði hinsvegar fullan hug á að fara í einhverskonar endurbætur á sundhöll Ísafjarðar sem engin vissi hvað myndu kosta. Peningar sem höfðu verið eyrnamerktir af fyrrverandui meirihluta í hönnun á Torfnessvæðinu sem framtíðarsvæðis fyrir íþróttastarf í bænum voru teknir og settir í hönnunarsamkeppni um útisvæði við sundhöllina við Austurveg. Sú keppni kostaði bæjarbúa á milli 25 og 30 milljónir króna. Það kom strax í ljós að engin samstaða var um þetta gæliverkefni meirihlutans. Einnig var ljóst að sundlaugin sjálf var alveg jafn illa farin þó að fyrir utan hana kæmu heitir pottar og rennibraut. Næstu vendingar í málinu voru svo þær að sett var af stað könnun meðal bæjarbúa þar sem fram átti að fá einhverja framtíðarsýn í málinu. Þá hafði Í-listinn uppgvötað að íbúalýðræði væri málið og því skildi spyrja fólkið í bænum. Áður hafði minnihlutinn lagt til að farið yrði í könnun um þessi mál, en meirihlutinn felldi þá tillögu og fór í áðurnefnda hönnunarsamkeppni. Það er skemmst frá því að segja að könnunin var stórundarleg. Allar tölur í henni voru skáldaðar og gáfu enga mynd af raunverulegum kostnaði samkvæmt svari bæjarstjóra á facebook síðu nýlega. Íbúar bæjarins voru margir hverjir í hreinustu vandræðum að svara könnuninni og 75 prósent þeirra ákváðu greinilega að láta það alveg eiga sig að svara. En niðurstaða hinna 25 prósentanna var greinilega að Torfnes væri framtíðarsvæðið sem huga skildi að. Niðurstaða könnunarinnar hefur að vísu ekki verið lögð fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn. En meirihlutinn hefur greinilega haft smjörþef af niðurstöðunni því nú er komið allt annað hljóð í strokkinn. Í grein hér á BB.is í gær kemur fram að Í-listinn vill nefnilega allt í einu fara með allt uppá Torfnes og er alveg hættur við að fara í einhverjar framkvæmdir við sundhöllina. Þessi umskipti gerðust svo snöggt að klukkutíma áður var oddviti Í-listans á allt öðru máli á fundi um íþróttamál sem HSV hélt með frambjóðendum. Þá sagði hún að það væri ennþá planið að vinna að breytingum á sundhöllinni við Austurveg. Áður hafði hún líka viðrað hugmyndir í sjónvarpsviðtali um að fara í samvinnu með nágrönnum okkar í Bolungavík í sundlaugarmálum. Er nema furða að fólk skilji hvorki upp né niður í því hvað meirihlutinn er að hugsa í þessum málum. En það sem fyrir liggur, og er ekkert erfitt að skilja er það að á kjörtímabilinu er búið að eyða stórum peningum í ekki neitt. Það eina sem þessar æfingar meirihlutans hafa skilað okkur er 3 ára seinkun á uppbyggingu íþróttamannvirkja á Ísafirði.

Ingólfur Þorleifsson

Suðureyri

DEILA