Hafði hretið nokkuð áhrif á fuglavarp?

Spói í Engidal. Mynd: Cristian Gallo, tekin af síðu Náttúrustofu Vestfjarða.

Það er fátt huggulegra en að sofna við fuglasöng á vorin. Sumir gera þó ýmislegt meira en að hlusta á fuglana, heldur fylgjast með þeim líka og tilkynna jafnvel til Náttúrustofu Vestfjarða þegar farfuglarnir fara að birtast aftur hérna fyrir vestan. Á heimasíðu Náttúrustofu má lesa að flestar algengustu fuglategundirnar eru komnar þetta vorið. Skógarþrösturinn sást fyrst 22. mars í Steingrímsfirði, heiðlóa sást á Hólmavík 19. apríl, jaðraki er kominn bæði í Önundarfjörð og á Bassastaði í Steingrímsfirði, en líka hrossagaukurinn sem skrapp einnig til Súðavíkur. Sandlóa sást nýverið í botni Hestfjarðar og spói í Engidal. Enn er beðið eftir kríunni en hún er á leiðinni til okkar frá Suður-Afríku og Suðurskautslandinu, þar sem hún dvelur frá september og fram í maí.

Blaðamanni BB lék forvitni á að vita hvort vorfuglarnir væru farnir að verpa og hvort hretið undanfarna daga hefði nokkur áhrif á það. Christian Gallo, vistfræðingur hjá Náttúrstofunni sagði að staðfuglarnir væru allavega byrjaðir. Þar mætti nefna hrafna, starra og svo hefði tjaldurinn byrjað að verpa í Skutulsfirði í lok apríl. „Ég fann líka tvö hreiður í Bolungarvík í síðustu viku en margir af þessum tjöldum eru líklega staðfuglar. Ég gæti samt trúað að hettumávur, skógarþröstur og grágæs væru byrjuð að verpa og þeir eru farfuglar. Ég held að vorhretið hafi ekki haft nein áhrif á varpið en þó var eitt hreiðranna sem ég fann hér í Bolungarvík ónýtt. Líklega þó af völdum hrafnsins,“ sagði Christian í samtali við BB.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA