Fjórir heiðursborgarar kjörnir í Vesturbyggð

Heiðursborgarar Vesturbyggðar.

Fjórir heiðurborgarar voru kjörnir á síðasta bæjarstjórnarfundi Vesturbyggðar árið 2017, en þrír þeirra voru heiðraðir við athöfn í Félagsheimilinu á Patreksfirði síðasta laugardag. Þau sem heiðruð voru eru Hannes Friðriksson, Helga Bjarnadóttir og Bjarni Hákonarson.

Bjarni Hákonarson er fæddur og uppalinn í Haga á Barðaströnd, þar sem hann hefur verið bóndi, ásamt því að stunda útgerð. Í frétt á heimasíðu Vesturbyggðar kemur fram Bjarni hafi alla tíð verið aðsópsmikill í heimabyggð. “Hann var lengi í hreppsnefnd Barðastrandahrepps og hreppstjóri í mörg ár. Bjarni var í fyrstu bæjarstjórn sameinaða sveitarfélagsins Vesturbyggðar frá árinu 1994. Bjarni sat lengi í stjórn Breiðafjarðarferjunnar Baldurs og í stjórn Mjólkursamlags Barðstrendinga. Hann var fulltrúi hreppsins í Bændasamtökum Íslands. Stöðvarstjóri Pósts og síma á Barðaströnd. Var í sýslunefnd og jarðarnefnd. Bjarna var alltaf mjög umhugað um Birkimelsskóla var lengi prófdómari í skólanum. Þá var hann póstur, gangnastjóri og réttarstjóri í sveitinni. Bjarni sat ennfremur í ótal nefndum og gegndi trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélögin á Barðaströnd og Vesturbyggð. Eiginkona Bjarna er Kristín Haraldsdóttir og eiga þau 7 börn og 60 afkomendur í allt.”

Hannes Friðriksson er fæddur og uppalinn á Bíldudal, en hann hefur verið verslunarmaður á Bíldudal allan sinn starfsferil. Á heimasíðu Vesturbyggðar kemur fram að þau séu fá verkefnin sem Hannes hefur ekki komið að í sinni heimabyggð. “Hann hefur starfað í rúma hálfa öld með leikfélaginu Baldri, lengst af sem formaður en líka tekið þátt í ótal leiksýningum og þá í eftirminnilegum hlutverkum. Hann hefur einnig tekið virkan þátt í íþróttalífi Bíldudals og setið í stjórn íþróttafélagsins þar. Hannes hefur líka verið í mörgum kórum og söngsveitum. Bíldudalskirkja og velferð hennar hefur alla tíð verið Hannesi hugleikin en hann er sóknarnefndarformaður við Bíldudalskirkju. Eiginkona Hannesar er Þórunn Helga Sveinbjörnsdóttir frá Patreksfirði og eiga þau 4 börn, 17 barnabörn og 6 langafa-og ömmubörn.

Helga Bjarnadóttir fæddist á Litlu Eyri við Bíldudal, en þar var hún einnig uppalin. Á heimasíðu Vesturbyggðar kemur fram að hún hafi starfað við leikskóla á Patreksfirði í yfir 40 ár. “Helga var leikskólastjóri Leikskóla Vesturbyggðar frá 1997 til 2017 og stýrði þá af miklum skörungsskap bæði Arakletti á Patreksfirði og Tjarnarbrekku á Bíldudal og færði leikskólastarf í Vesturbyggð til nútímakennsluhátta. Helga lauk verslunarprófi og er með BEd próf í leikskólafræðum sem hún lauk samhliða vinnu. Helga sat í sveitarstjórn Patreksfjarðarhrepps í tvö kjörtímabil. Hún hefur starfað með Kvenfélaginu Sif í 44 ár og verið þar formaður í fjölda mörg ár af mikilli elju. Þá hefur Helga einnig verið formaður Sambands vestfirskra kvenna. Eiginmaður Helgu er Úlfar Thoroddsen og eiga þau 3 syni og 5 barnabörn.”

Margrét Lilja
milla@bb.is

DEILA