Er upplýsingaþoka á Vestfjörðum?

Tómas Guðbjartsson við Rjúkanda. Mynd: Tómas Guðbjartsson.

Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi VesturVerks sendir mér enn og aftur tóninn í grein í Fréttablaðinu í dag en uppnefnir mig þó ekki að þessu sinni. Þar reynir hún að týna til skýringar og mótmæla þeirri gagnrýni minni að umræðan á Vestfjörðum um Hvalárvirkjun sé „straumlínulöguð“ af hagsmunaaðilum og náttúran á svæðinu ítrekað töluð niður. Fjarveru vestfirskra ráðamanna á fyrirlestur okkar Ólafs Más á Ísafirði rekur hún m.a. til þess að fáir lesi Morgunblaðið og Fréttablaðið á Vestfjörðum – en í þeim blöðum keyptum við hálfsíðuauglýsingar um viðburðinn. Einnig stofnuðum við með góðum fyrirvara sérstaka viðburðarsíðu á FB og dreifðum grimmt á netinu. Birna gleymir að nefna að daginn fyrir fyrirlesturinn birtist ágæt umfjöllun í Bæjarins Besta sem sjá má hér: https://www.bb.is/…/fyrirlestur-um-osnortin-viderni-a…/, og er þar m.a. vísað í viðtal við mig. Í sama miðli, BB, keyptum við Ólafur Már skjáauglýsingu um fyrirlesturinn. Ég er því alls ekki að kaupa þau rök að þessi viðburður hafi verið illa auglýstur. Eða lesa ráðamenn á Vestfjörðum ekki BB? Sumir þeirra teljast meira að segja til eiganda blaðsins eins og reyndar VesturVerk líka. Þegar fyrirlestur okkar Ólafs Más fór fram fyrir næstum fullu húsi var Sjálfstæðisflokkurinn að opna kosningaskrifstofu sína á nákvæmlega sama tíma í næstu götu. Sumir fulltrúar þeirra, m.a. Hafdís Gunnarsdóttir eiga hrós skilið fyrir að tilkynna okkur að þeir gætu af þeim sökum ekki mætt á fyrirlesturinn. Það er rétt að sumir gestanna á fyrirlestrinum voru komnir til að taka þátt í Fossavatnsgöngunni daginn eftir, en í hópi þeirra voru brottflutnir Ísfirðingar. Í salnum voru þó jafnframt Vestfirðingar eins og Konráð Eggertsson og margir skoðanabræðra hans – það veit ég því þeir létu okkur heyra það í lok fyrirlesturins og það á kjarnyrtri íslensku. Að lokum væri gaman að heyra hvort Birna hafi sjálf gengið að fossunum upp af Ófeigs- og Eyvindarfirði – eða hvort hún styðjist við munnlegar heimildir um fegurð þeirra, því myndum okkar Ólafs virðist hún ekki trúa.

Tómas Guðbjartsson, læknir og náttúrverndarsinni

 

DEILA