Af hverju Vestfirðir?

Magnús Ingi Jónsson.

Eftir menntaskólagöngu í Menntaskólanum á Ísafirði lá leið mín suður til Reykjavíkur til frekari menntunar, eins og leið flestra ungra Vestfirðinga liggur í dag. Menntavegurinn lá á braut ferðamála og markaðsfræða við Háskóla Íslands sem síðar leiddi mig til áframhaldandi menntunar í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum. Þegar háskólagráðurnar voru komnar í hús þá var það ekki erfið ákvörðun fyrir mig að flytja aftur heim til Bolungarvíkur en það var hinsvegar ekki sjálfgefið að flytja aftur heim. Kærastan mín, Annika Behnsen, var blessunarlega á sama máli og var tilbúin til þess að halda áfram sínu námi í fjarnámi til þess að geta flutt vestur.

Ég vinn á Þjónustudeild Vegagerðarinnar, með aðstöðu á Ísafirði en Annika vinnur í hlutastarfi á leikskólanum Glaðheimum í Bolungarvík með kennaranámi. Ég hef unnið á hinum ýmsu stöðum og ber þar helst að nefna Markaðsstofu Vestfjarða og Íþróttamiðstöðina Árbæ. Framtíðarsýnin okkar er að koma okkur fyrir í Bolungarvík, nýta okkar menntun í þágu samfélagsins og vera virkir meðlimir í uppbyggingu samfélagsins.

Bæjarmálin

Ég hef reynt hvað ég get eftir að ég flutti aftur heim að hafa áhrif á samfélagið mitt í gegnum félagasamtök. Mér finnst mjög skemmtilegt að vinna í félagsmálum og taka þátt í verkefnum sem koma að uppbyggingu samfélagsins og vellíðan íbúa. Ég er formaður samtakanna Heilsubærinn Bolungarvík, virkur meðlimur í skógræktarfélagi Bolungarvíkur og er að vinna að því á næstu dögum að stofna umhverfissamtök Bolungarvíkur. Það kemur því sennilega ekkert á óvart að mín helstu áherslumál í bæjarpólitíkinni séu, atvinnumál, umhverfismál, ferðamál, heilbrigðismál og velferðarmál. Framtíðarsýnin mín er að samfélagið í Bolungarvík muni dafna, að vel sé tekið á móti nýjum íbúum og stoðir atvinnulífsins styrktar. Atvinnumálin og húsnæðismálin eru þeir málaflokkar sem við þurfum að hlúa hvað mest að á næstu fjórum árum. Við getum ekki sagt að við séum að laða að ungt fólk eða nýja íbúa ef við höfum hvorki atvinnu, byggingarlóðir né húsnæði í boði. Aðrir málaflokkar munu síðan fylgja í kjölfarið en atvinnumál og húsnæðismál hljóta alltaf að vera kjölfestan í ákvarðanatöku um nýja búsetu fólks. Einnig verðum við í bæjarpólitíkinni að gera okkur grein fyrir því að íbúasamsetning hefur verið að breytast undanfarna áratugi og íbúar samfélagsins eru að eldast og fleiri munu koma til með að þurfa á velferðarþjónustu sveitarfélaganna að halda á næstu árum.

Umhverfismálin

Umhverfismálin eru málaflokkur sem oft á tíðum er settur á hliðarlínuna þegar kemur að fjárveitingum. Það er eitthvað sem má ekki gerast og breytingar þar á þurfa ekki að kosta svo mikið. Í þessum málaflokki er mikið um lítil atriði sem auðvelt er að kippa í liðinn en skipta samt sem áður miklu máli. Það er því vel við hæfi að þessi málaflokkur sé settur í forgang þegar lítið er um digra sjóði hjá sveitarfélaginu. Mótun umhverfisstefnu fyrir sveitarfélagið er stórt verkefni sem yrði síðan vinnuplagg sem unnið yrði eftir á komandi árum. Undir umhverfisstefnuna falla gríðarlega mörg atriði sem hafa áhrif á samfélagið okkar sem margir íbúar eru ekki sáttir við í dag. Þar má helst nefna sorpmál og sorpflokkun, fráveitumál, viðhald gatna og gangstétta, setningu umhverfismarkmiða og aukna deiliskipulagningu. Best væri einnig að virkja íbúa sem mest við vinnu við umhverfisstefnu og hvetja íbúa til þess að taka opin svæði í fóstur í samráði við sveitarfélagið. Þar að auki finnst mér kjörið að sveitarfélagið haldi samkeppni um umhverfishönnun á Aðalstræti með það að meginmarkmiði að gera íbúavænan miðbæ.

Ferðamálin og samgöngumálin

Þar sem bakgrunnur minn og menntun tengist að stórum hluta ferða- og samgöngumálum, þá liggur það kannski í augum uppi að þar liggur áhugasviðið. Leggja þarf vinnu í skipulag og hönnun ákveðinna svæða, merkingar gönguleiða, skilta- og upplýsingagerð og mótun vettvangs til dreifingar slíkra upplýsinga. Söfnin okkar tvö þurfa aukna markaðssetningu og semja þarf við landeigendur í Ósvör um áframhaldandi aðstöðuuppbyggingu við Sjóminjasafnið Ósvör. Fyrir liggur styrkur til hönnunar á útsýnispalli á Bolafjalli og það þarf að fylgja honum eftir á komandi árum með styrkbeiðnum til framkvæmda. Þegar kemur að samgöngumálum þá eru það almenningssamgöngurnar sem kallað er eftir. Foreldar með börn í frístundum eru mjög ánægðir með tilraun síðustu ára um frístundarútu og best væri ef hægt væri að útfæra frístundarútuna sem almenningssamgöngur og fjölga þar af leiðandi ferðum á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.

Eftir að ég flutti vestur hef ég fundið fyrir aukinni bjartsýni á meðal íbúa og atvinnulífið er hægt og rólega að verða fjölbreyttara. Við erum ekki eingöngu bundin við sjávarútveginn, þó svo hann muni ávallt vera undirstöðuatvinnugrein í samfélaginu. Við þurfum líka að stuðla að því sem íbúar Vestfjarða að standa saman í stærri málefnum, því ef fleiri eru sammála og röddin heyrist hátt er sannfæringarkrafturinn meiri. Að endingu þá finnst mér að við ættum að nýta kosti þess fjölmenningarsamfélags sem er hér á svæðinu og bjóða nýbúa, bæði innlenda og erlenda, meira velkomna heldur en við gerum í dag.

Magnús Ingi Jónsson, skipar 3. sæti á K-lista Máttar meyja og manna í Bolungarvík.

DEILA