17 einstaklingar skráðu lögheimili sitt í Árneshreppi

Frá Árneshreppi. Mynd: Hrafn Jökulsson.

Á vef frettabladsins.is er sagt frá því í morgun að 17 einstaklingar hafi skráð lögheimili sitt í Árneshreppi á tímabilinu 24. apríl til 4. maí. Þetta séu málamyndaskráningar og fyrirætlanir þessara einstaklinga séu einungis að geta haft áhrif í sveitarstjórnarkosningunum. Árneshreppur er eitt fámennasta sveitarfélag landsins, með 44 fjóra skráða íbúa þann 24. apríl, en með nýskráningunum fjölgaði íbúum þar um 39 prósent. Hreppurinn hefur gert Sambandi sveitarfélaga viðvart sem og Þjóðskrá Íslands sem tilkynnir málið áfram til innanríkisráðuneytisins.

Hjá Fréttablaðinu kemur enn fremur fram: „Í lögum um kosningar til sveitarstjórna kemur meðal annars fram að það teljist til kosningaspjalla að gefa upp villandi upplýsingar um búsetu, sem leitt geti til þess að maður verði settur á kjörskrá sem á ekki rétt á að vera þar.“ Þá benda forsvarsmenn Árneshrepps á að samkvæmt hegningarlögum getur fólk átt von á fangelsisvist ef það tekur þátt í atkvæðagreiðslu, eða aðstoðar aðra við hið sama, á ólöglegum forsendum.

Þjóðskrá er að vinna í því að kanna hvort búseta þessara 17 einstaklinga hafi í raun breyst fyrir 4. maí og fær málið flýtimeðferð hjá þeim.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA