Villi Valli heiðursborgari Ísafjarðarbæjar

Sigurður Hreinsson, Nanný Arna Guðmundsóttir og Kristján Andri Guðjónsson færa Vilbergi Valdal Vilbergssyni blómvönd og útnefningarskjal sem heiðursborgari Ísafjarðarbæjar, fyrir utan heimili hans.

„Ég er bara hissa. Orðlaus. Þessi hefði ég aldrei búist við. Það eru margir aðrir sem eiga þetta meira skilið en ég.“ Sagði Vilberg Valdal Vilbergsson, betur þekktur sem Villi Valli, þegar fulltrúar bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar færðu honum viðurkenningu og blómvönd, eftir að hafa verið valinn heiðursborgari Ísafjarðarbæjar.

Kristján Andri Guðjónsson, bæjarfulltrúi lagði fram tillögu á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, 12. apríl síðastliðinn, að Villi Valli yrði gerður að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Til máls tóku Nanný Arna Guðmundsdóttir, forseti bæjarstjórnar, og Kristján Andri Guðjónsson, bæjarfulltrúi.

Í rökstuðningi, sem Kristján Andri flutti á fundi bæjarstjórnar, kom fram að það hafi snemma verið ljóst að Villi Valli var gæddur miklum tónlistargáfum. „Villi Valli er fæddur á Flateyri við Önundarfjörð 26. maí árið 1930, sonur Vilbergs Jónssonar, vélsmiðs, og Jóhönnu Steinunnar Guðmundsdóttur. var snemma ljóst að Villi Valli var gæddur óvenjulegum tónlistarhæfileiku og hann var ekki nema 12 ára þegar hann lék í fyrsta sinn á harmoniku fyrir dansi á Flateyri. Strax á barnsaldri var ljóst að Villi Valli bjó yfir óvenjulegum tónlistarhæfileikum og hann var ekki nema tólf ára þegar hann lék í fyrsta sinn á harmoniku fyrir dansi á Flateyri. Þrettán ára var hann farinn að leika einn á dansleikjum. Næstu árin lék hann ýmist einn eða með öðrum hér vestra og einnig í Reykjavík árið 1949. Harmonikan var hans aðalhljóðfæri en hann lærði einnig á saxófón hjá Guðmundi Nordahl og náði mjög góðum tökum á því hljóðfæri. Árið 1950 flutti Villi Valli til Ísafjarðar til að nema hárskera- og rakaraiðn hjá Árna Matthíassyni og varð það hans aðalstarf í yfir sextíu ár. Segja má að hann hafi haft hendur í hári flestra ísfirskra karlmanna á þessum langa ferli. Á Ísafirði hélt hann áfram í tónlistinni og stofnaði fjölda hljómsveita á næstu áratugum, tríó, kvartetta og stærri bönd, sem íbúar Ísafjarðarbæjar muna margir eftir. Fjölmargir einstaklingar nutu leiðsagnar hans í tónlistinni á þessum langa ferli og eiga honum gott að gjalda. Árið 1959 tók Villi Valli við stjórn Lúðrasveitar Ísafjarðar og stjórnaði henni í níu ár, en var virkur félagi í henni lengi eftir það. Hann hefur spilað með Harmonikufélagi Vestfjarða um árabil og gerir enn. Þótt Villi Valli sé þekktur fyrir hljóðfæraleik sinn hefur hann á seinni árum vakið athygli fyrir tónsmíðar sínar. Hann hefur gefið út tvo hljómdiska, árið 2000 „Villi Valli“ og árið 2008 „Í tímans rás“, auk þess sem hann spilaði í Saltfiskveit Villa Valla á diskinum „Ball í Tjöruhúsinu“ árið 2009. Jazz músíkin heillaði Villa Valla snemma á lífsleiðinni og drakk hann í sig snilldartakta gömlu meistaranna. Hann er talinn standa einna fremst íslenskra harmonikuleikara í spuna (improvisation) á Íslandi, en slíka takta sýndi hann einnig á saxófóninn. Villi er ekki aðeins tónlistarmaður heldur er hann listmálari og eftir hann finnast mörg falleg verk í húsakynnum Vestfirðinga. Kona hans, Guðný Magnúsdóttir, sem lést á síðastliðnu ári, var einnig málari og börn þeirra fjögur eru öll listafólk. Villi Valli, sem senn verður 88 ára, er enn í fullu fjöri. Hann og kona hans Guðný, hjóluðu iðulega um bæinn sinn og vöktu athygli bæjarbúa. Þau voru bæjarprýði. Árið 2001 var Villi Valli útnefndur bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar. Vilberg Valdal Vilbergsson hefur átt heima í Ísafjarðarbæ nánast allt sitt líf. Hann þjónaði bæjarbúum sem hárskeri í rúmlega 60 ár og auðgaði tónlistarlíf bæjarins með tónlist sinni. Nánast allir bæjarbúar þekkja hann og virða og þakka honum. Það er því við hæfi að kjósa hann heiðursborgara Ísafjarðarbæjar.“

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA