Svíþjóð býður vestfirskum listamönnum heim

Menningarhús Linköping. Mynd fengin af vef Ísafjarðarbæjar.

Á vef Ísafjarðarbæjar kemur fram að atvinnu- og menningarmálanefnd Ísafjarðarbæjar auglýsi eftir umsóknum frá myndlistarmönnum í bæjarfélaginu sem vilja taka þátt í samstarfsverkefni við vinabæinn Linköping í Svíþjóð. Frumkvæðið að þessu samstarfi kemur frá Linköping, en þar er nú verið að byggja nýtt menningarhús í úthverfinu Skäggetorp sem tekið verður í notkun haustið 2018. Rekstrarstjóri Menningarhússins, Mårten Hafström, verður ábyrgur fyrir gestavinnustofum fyrir listamenn sem til stendur að reka í menningarhúsinu í samvinnu við sýningarrýmið Passagen í miðbæ Linköping.

Linköping býður Ísafjarðarbæ að tilnefna 2-3 listamenn og úr þeim hópi verður einum listamanni boðið til þriggja mánaða dvalar í Linköping. SÍM – Samband íslenskra myndlistarmanna – mun veita faglega aðstoð við tilnefningu listamannanna. Greitt verður fyrir ferðir, gistingu og uppihald á staðnum, auk efniskostnaðar og vinnuaðstöðu. Gert er ráð fyrir því að listamaðurinn/konan haldi sýningu, kenni námskeið og/eða haldi fyrirlestur/listamannaspjall á meðan á dvölinni stendur. Reiknað er með því að viðkomandi listamaður dvelji í Linköping í þrjá mánuði á tímabilinu febrúar til ágúst 2019.  

Umsóknarfrestur er til miðnættis 30. apríl n.k. Nánari upplýsingar má fá hjá ritara atvinnu- og menningarmálanefndar í gegnum netfangið thordissif@isafjordur.is

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA