Sprautunálar finnast á víðavangi

Undir lok marsmánuðar kom tilkynning á Facebook frá Lögreglunni á Vestfjörðum, þess efnis að sprautunálar og sprautur hefðu fundist á víðavangi. Þar segir ennfremur að lögreglan fái reglulega tilkynningar um þetta frá vegfarendum og svo hafi verið í langan tíma. Ekki kemur þó fram hvort sprauturnar séu að finnast alltaf á sömu stöðum né í hvaða bæjarfélagi fundirnir hafa átt sér stað. Á Facebook síðunni stendur einnig skrifað að ekki þurfi að tíunda smithættuna af notuðum nálum fyrir fullorðnum og rétt sé að foreldrar brýni fyrir börnum sínum hvað eigi ekki að gera ef þau rekast á nálar eða sprautur. Lögreglan bendir fólki jafnframt á að hafa samband við sig og þau muni fjarlægja hlutina og koma þeim til eyðingar.

Það má velta fyrir sér hvort ekki væri rétt að lögreglan færi með fræðslu um þessi efni inn í skólana þar sem notaðar sprautur og nálar hafa verið að finnast í lengri tíma að þeirra sögn. Einnig kom fram í athugasemd við tilkynninguna hvort ekki væri mögulegt að setja upp lítið áberandi móttökustað fyrir slíka hluti, til að minnka hættuna á að börn stingi sig og smitist af sjúkdómum.

Ekki náðist í Hlyn Snorrason, yfirlögregluþjón, við vinnslu þessarar fréttar.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA