Smalar kindum með dróna

Ásgeir Sveinsson, Birna Friðbjört Hannesdóttir og synir.

Sauðfjárbúskapur hefur átt undir högg að sækja lengi eins og margir vita. Ímynd bænda er heldur ekki alltaf sem best og þess vegna langaði blaðamann BB að koma þeim aðeins á framfæri. Einn þeirra sem brást við beiðni blaðamanns er Ásgeir Sveinsson, frá Innri-Múla á Barðaströnd. Ásgeir býr á Patreksfirði með konu sinni, Birnu Friðbjörtu Hannesdóttur, þau eiga fjóra drengi á aldrinum 2-11 ára og fimmta barnið mætir í heiminn í byrjun maí. Birna Friðbjört vinnur meðal annars í Patreksskóla, en Ásgeir keyrir nánast á hverjum degi inn að Múla til að sinna búskapnum, en þar búa eldri bróðir hans, Barði, og móðir þeirra. Ásgeir er einnig formaður bæjarráðs Vesturbyggðar og sækist eftir endurkjöri í það embætti vegna mikils áhuga á uppbyggingu á innviðum sveitarfélagsins og rekstri þess. Hann mælir jafnframt með búsetu á Patreksfirði og segist vera mjög ánægður með að geta boðið sonum sínum upp á fyrsta flokks kennslu í íþróttum og tónlistarnámi þar. „Vesturbyggð er góður staður til að búa á og ala upp börn. Okkur vantar mikið af fólki í laus störf á svæðinu og skora ég á ykkur að fletta okkur upp og skoða aðstæður,“ segir Ásgeir þegar BB spyr af hverju fólk ætti að flytja í Vesturbyggð.

En hvað með búskapinn? Í hverju felst vinnan þar? „Á Innri-Múla er rekið stórt fjárbú með um 950 kindur á vetrarfóðrum og 5 border collie smalahunda. Ræktun hefur gengið vel og höfum við tvisvar á síðustu árum átt hrút í efsta sæti fyrir afkvæmarannsókn á Íslandi. Svo höfum við selt einn hrút á sæðingarstöð og var hann mest notaði hrúturinn á stöðinni á sínu fyrsta ári en hann Krapi var einnig fyrsti kollótti hrúturinn til að vera sá mest notaði,“ skrifar Ásgeir og segir svo frá smalamennskum, sem hljóta að vera erfiðar með svona mikið fé.

„Smalamennskur taka gríðarlega mikinn tíma og þrek. Fámenni er orðið mikið og þar sem við erum ysti bærinn þá flæðir féð frá okkur yfir á Rauðasand, Patreksfjörð,Tálknafjörð og Arnarfjörð. Eftir að búið er að smala heimalöndin þá vantar yfirleitt um 300 lömb, þrátt fyrir að 6-10 smalamenn hafi verið að í 6 daga og gengið frá 15-30 km á dag. Eftir það taka við leitir sem standa út allan október og fram í nóvember. Heimtur í haust voru með besta móti en við bræður erum með góða hunda og svo hef ég verið að nota dróna til smölunar. Dróninn er mikil bylting við fjárleitir og svo er líka hægt að láta hann smala. Ég notaði hann nánast á hverjum degi í allt haust og tók hann af mér ófá sporin og sparaði þannig bæði tíma og þrek hjá mér. Kindurnar hrökkva undantekningarlaust undan honum nema ef þær eru í klettasyllum eða í skógi. Þá er hættara við að þær standi bara og góni á hann. En ef ekkert er fyrir þá flýg ég alveg að þeim og þær hrökkva af stað. Svo er þetta bara eins og að vera með hund, þ.e. að láta hann ekki fylgja þeim of nálægt, því þá fara þær að stoppa og snúa sér við.“

„Kindur í klettum verja sig bak við nibbur og klettanef. Ég hef getað rekið úr klettum en það er sjaldgæft. En þá tekur maður mynd og veit þá hvaða kind þetta er ef hún skyldi svo ekki sjást aftur eða þá koma á öðrum stað. Þessi tækni er ótrúleg og að það sé hægt að taka allt flugið upp og taka myndir með þessum gæðum er ómetanlegt þegar farið er um erfið lönd. Að fljúga yfir kjarr til að staðsetja kindur er snilld. Í haust var ég til dæmis að leita að kindum í einum dal þar sem er þétt kjarr og sá bara 4 kindur í hlíðinni með kíki en vissi að það ættu að vera fleiri. Þegar ég flaug yfir þá fann ég 20 til viðbótar og þær sem hrukku ekki af stað sjálfar við drónann gat ég staðsett og labbað beint að þeim. Hundarnir spá ekkert í drónanum og er engin truflun af því að hafa hann nema þá ef hundurinn heyrir ekki skipanir vegna hljóðsins í spöðunum.“

„Nú er vor í lofti og bændur farnir að huga að vorverkum og undirbúa komu lambanna. Manni finnst nú ekki komið vor fyrr en maður heyrir lambsjarm í húsunum. Ég fæ engin fyrirmáls lömb í ár þar sem allt féð sem er á húsi var komið á nánast tilsettum tíma þökk sé drónanum,“ skrifaði Ásgeir og BB þakkar honum kærlega fyrir skemmtilega frásögn.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com 

DEILA