Skaðabótamáli vegna nauðgunar vísað frá

Skaðabótamáli, sem höfðað var til greiðslu skaðabóta vegna nauðgunar, var á dögunum vísað frá í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ástæða frávísunarinnar var sú að stefnan var ekki löglega birt. Málið sem um ræðir varðar nauðgun, sem kærð var í desember 2014, en atvikið á að hafa átt sér stað á Ísafirði í september 2014. Þetta kemur fram í frétt á Vísi í dag.

Konan sem um ræðir leitaði til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða eftir atvikið og kærði málið til lögreglu. Fram kemur að eftir rannsókn lögreglu hafi málið verið sent til saksóknara, sem krafðist frekari rannsóknar. Kom þá í ljós að sýnum, sem tekin höfðu verið á Heilbrigðisstofnuninni, hafði verið eytt. Málið var látið niður falla í kjölfarið, þar sem það þótti ekki líklegt til sakfellingar.

Konan ákvað þá að höfða mál til viðurkenningar á bótarétti sínum vegna afleiðinga atburðarins. Segir í fréttinni að konan hafi talað um að tveir útlendir menn, sem flust hefðu sérstaklega til Ísafjarðar til að spila knattspyrnu, hefðu nauðgað sér og að þeir hefðu tvíeflst við mótspyrnu hennar. Annar mannanna býr enn á landinu en hinn leikur í Bretlandi.

Lögmaður konunnar reyndi árangurslaust að hafa upp á síðarnefna manninum, meðal annars með því að reyna að fá aðsetur mannsins uppgefið hjá núverandi liði mannsins. Engar upplýsingar var heldur að hafa um aðsetur mannsins hjá breskum stjórnvöldum. Stefnan var því að endingu birt í Lögbirtingablaðinu.

Dómurinn taldi að ekki hefði verið reynt til fullnustu að birta manninum stefnuna samkvæmt breskum lögum, þar sem hægt væri að leita til bresks birtingarvotts og birta stefnuna þar. Skilyrði fyrir birtingu í Lögbirtingablaðinu voru því ekki uppfyllt og málinu vísað frá.

Í annarri frétt á Vísi um sama mál, kemur fram að konan, sem var aðeins tvítug þegar hún kærði nauðgunina til lögreglu, hafi sagt í viðtali að hún hafi upplifað aðstæður eins og hún væri ein og yfirgefin. Mikill dráttur á rannsókn málsins leiddi meðal annars til þess að mikilvægum gögnum, þar með töldum sýnum úr læknisskoðun skömmu eftir nauðgunina, var fargað. Ríkissaksóknari bað lögregluna á Ísafirði oftar en einu sinni að rannsaka málið betur en það var á endanum fellt niður.

Margrét Lilja

milla@bb.is

 

 

 

 

DEILA