Restart hópurinn hittist til að gera við biluð raftæki

Í síðustu viku hittust bæði sjálfboðaliðar og fólk með biluð tæki í FAB LAB á Ísafirði. Hópurinn hittist undir merkjum Restart, og markmiðið var að gefa biluðum tækjum lengra líf og minnka þannig mögulega hinn sívaxandi ruslahaug í heiminum. „Þetta gekk bara vonum framar, það var góð mæting og góð stemmning,“ segir Þórarinn Bjartur Breiðfjörð í samtali við BB. „Markmiðið var að vekja athygli á þessari vinnustofu og við verðum svo með aðra þann 9. maí. Það voru um það bil fimmtán sem mættu núna og þar af fimm til að aðstoða við viðgerðir. Við náðum að gera við tvö tæki og svo voru fimm önnur sem var hægt að gera við en okkur vantaði varahluti eða meiri tíma.“

„Það voru meira að segja skóviðgerðir þarna til hliðar,“ bætir Hildur Dagbjört við, en hún er annar forsprakki þessa verkefnis á Ísafirði, ásamt Þórarni. „Slíkar viðgerðir eru samt ekki skráðar í gagnagrunninn hjá Restart eins og raftækin,“ segir Þórarinn, „en það er ekkert því til fyrirstöðu að fólk komi með öðruvísi hluti en raftæki og jafnvel smærri húsgögn. Við höfum pláss fyrir það í FAB LAB.“  

Þórarinn segir líka að hann hafi bara kynnst Restart fyrir nokkrum vikum og þá haldið að þetta væri íslenskt fyrirbrigði. Raunin er þó sú að þetta eru bresk samtök sem eru að teygja sig út um allan heim og þau halda gagnagrunn yfir öll þau tæki sem tekst að gera við. Áhugasamir geta skoðað heimasíðuna þeirra á Íslandi á þessari slóð eða á þessari Facebooksíðu.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA