Orkubú Vestfjarða endurmarkar merki fyrirtækisins og opnar nýja heimasíðu

Í tilefni þess að 40 ár eru liðin frá því að Orkubú Vestfjarða hóf starfsemi ákvað stjórn félagsins að endurmarka hið gamalkunna merki fyrirtækisins. Einnig hefur fyrirtækið tekið í gagnið nýja notendavænni heimasíðu ov.is, en merkið ásamt heimasíðunni var kynnt með viðhöfn í Orkubúi Vestfjarða síðdegis í gær.

Elías Jónatansson, orkubússtjóri, kynnti nýtt merki, sem er náskylt því gamla, en tekur ákveðnum breytingum sem gerir hið kunna form einfaldara, sterkara og heilsteyptara. „Merkið var gert hlýrra, en það á að minna á hreinleika orkunnar sem við notum,“ segir Elías. „Upprunalega merki Orkubúsins var hannað af Ólafi Kristjánssyni (Óla málara), fyrrum bæjarstjóra Bolungarvíkur og píanóleikara og var lögð áhersla á að halda „djassinum” í hinu góða merki OV.“

 

„Merkið er í björtum, bláum og hlýjum lit, sem skýrskotar vel til hreinleika orkunnar sem Orkubúið framleiðir og dreifir. Á tæknilegum nótum þá minnir merkið á úrkomu sem safnað er í lón til að byggja upp þrýsting til orkuframleiðslu í vatnshverflum. Þetta er gert með því að hafa litinn ljósan efst en dökkna þegar neðar dregur í merkinu. Merki OV er ýmist notað eitt og sér eða með nafni fyrirtækisins. Þegar nafnið er notað sem hluti merkisins er notað hátt og mjótt hástafaletur. Merkið mun taka yfir gamla merkið í áföngum, fyrst um sinn verður það mest áberandi á vef Orkubúsins, fánum og auglýsingaefni.“

Sigurður Arnórsson kynnti einnig nýja heimasíðu fyrirtækisins, en lagt var upp með að gera notendavæna síðu sem hentar snjallsímum. Sigurður segir að vefurinn hafi verið hannaður með nýja kynslóð í huga, sem notar snjalltæki, en það var fyrirtækið Origo sem sá um gerð nýrrar heimasíðu. „Markmiðið með endurnýjun síðunnar er að gera hana einfaldari og skilvirkari fyrir viðskiptavini okkar.“

 

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA