Opið fyrir umsóknir í Lýðháskólann á Flateyri

Nina Sterc, Henry Fletcher og Jay Simpson á Ingjaldssandi. Mynd: Lýðháskólinn á Flateyri.

Lýðháskólinn á Flateyri auglýsir nú eftir umsóknum til náms frá og með deginum í dag, 15. apríl, samkvæmt tilkynningu frá skólanum. Kennsla hefst haustið 2018. Hægt er sækja um á lydflat.is, en þar er einnig að finna nánari upplýsingar um skólann og námsframboð.

Í tilkynningunni sem skólinn sendi frá sér kemur fram að við skólann verði kennt á tveimur námsbrautum, sem hver um sig tekur að hámarki 20 nemendur. Námsbrautirnar sem um ræðir kallast Hafið, fjöllin og þú og Hugmyndir, heimurinn og þú.

Kennsla hefst 19. september 2018 og kennt er í tveggja vikna námslotum. Nemendur við skólann greiða skólagjöld, sem eru 200 þúsund krónur fyrir hvora önn. Ekki er um að ræða eiginlegan umsóknarfrest, en þær umsóknir sem berast fyrir 1. maí verða í forgangi, því eru umsækjendur hvattir til að sækja um sem fyrst til að auka líkur á inntöku. Umsækjendur verða að hafa náð 18 ára aldri við upphaf námsannar.

En hvað er lýðháskóli og fyrir hverja er hann? Fram kemur í tilkynningunni að lýðháskóli sé ólíkur hefðbundnum framhaldsskólum, en í lýðháskóla fá nemendur og kennarar tækifæri til að vera við leik og störf, án þess að þurfa að sökkva sér niður í fræðilegar kenningar og skólabækur. Lýðháskólar eru ekki bundnir af lögum um hefðbundna framhaldsskóla, sem þýðir að þeir eru lausir við próf og hefðbundnar kennsluáætlanir. Lýðháskólar mennta og þroska nemendur með óhefðbundnum en árangursríkum leiðum. Sjaldnast eru inngöngukröfur í lýðháskóla, en þó geta verið áherslur í hverjum skóla sem tekið er mið af þegar nemendur eru valdir. Aldursbilið er gjarnan 18 til 30 ára, en nemendur mega þó gjarnan vera eldri.

Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á lydflat.is.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA