Mikilvægt að þróa kerfið áfram

Strandveiðibátur landar í Bolungarvík.

í gær, fimmtdaginn 26. apríl, varð strandveiðifrumvarp atvinnuveganefndar að lögum. Í fréttatilkynningu Alþingis segir að eins og kom fram í máli framsögumanns málsins, og formanns atvinnuveganefndar, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur er „markmið þessa frumvarps að auka öryggi sjómanna og auka sveigjanleika í kerfinu. Horfið er frá því kerfi að fastir fjórir dagar í viku séu leyfilegir til strandveiða og sjómönnum gefst nú færi á að velja þá 12 daga í mánuði sem róið verður. Binda stuðningsmenn frumvarpsins við það vonir að þetta dragi úr hvata til þess að róa í viðsjárverðum veðrum. Þá er meðal annars aukið umtalsvert við heildaraflaheimildir innan strandveiðikerfisins, eða um 1000 tonn auk þess sem ufsi er ekki talin með upp að hámarksafla í strandveiðum.“

Í tilkynningunni kemur einnig fram að mikilvægt sé að þróa kerfið áfram þar sem bátum sen stunda strandveiðar hafi fækkað síðustu ár. Í stjórnarsáttmála er kveðið á um að þróa skuli strandveiðikerfið og eru þessar breytingar tilraun í þá veru. Málið verður tekið aftur upp í haust og farið yfir árangurinn af veiðunum.

Í samtali BB við Lilju Rafney kemur fram að hún telji að breytingarnar á frumvarpinu muni koma öllum til góða til lengri tíma litið. „Það að geta valið daga mun nýtast öllum vel, en við erum fyrst og fremst að auka öryggi sjómanna og gera alla jafna.“ Aðspurð um meint forskot vestfirskra strandveiðimanna með nýju frumvarpi segir Lilja: „Þetta er ómálefnalegt og ekki rökstutt. Þarna er verið að etja landssvæðum saman.“.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA