Mikill áhugi á íslenskum laxi á Sjávarútvegssýningunni í Brussel

Vestfirska laxeldisfyrirtækið Arnarlax tók þátt í sjávarútvegssýningunni í Brussel sem fram fór í vikunni og er þetta er í annað sinn sem fyrirtækið er með bás á sýningunni.

Að sögn Víkings Gunnarssonar framkvæmdarstjóra Arnarlax er hugsunin sú að hitta kaupendur og birgja ásamt því að kynna vestfirskan lax fyrir áhugasömum kaupendum. „Það er vaxandi eftirspurn eftir laxi í heiminum og ánægjulegt að sjá hversu mikill áhugi er á íslenskum laxi. Við höfum horft á kröfuharða markaði sem leggja áherslu á vistvæna framleiðslu, mikil gæði og erum nú þegar að selja töluvert inn á þessa markaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Við erum að klára vinnu við að fá ASC vottun sem er ein þekktasta umhverfisvottun sem hægt er að fá í fiskeldi og mun opna enn frekar inn á þessa markaði. Sú vottun gerir miklar kröfur þegar kemur að umhverfismálum og áhersla er lögð á að unnið sé í sátt við samfélagið.“

Sjávarútvegssýningin í Brussel er stærsta sýning sinnar tegundar í heiminum þar sem 1.850 fyrirtæki kynna vörur sínar og þjónustu.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA