Könnun – kynningargrein

Gísli Halldór Halldórsson.

Nú stendur yfir íbúakönnun í Ísafjarðarbæ sem öllum kosningabærum íbúum gefst kostur á að takaþátt í. Um er að ræða netkönnun sem hönnuð er og sett upp af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Í þessari könnun er leitað eftir skoðunum íbúa á ýmsum þáttum er varða Sundhöll Ísafjarðar og sundlaugarmál sveitarfélagsins. Spurt er út í endurbætur á Sundhöllinni og mögulegar staðsetningar nýrrar sundlaugar. Einnig er spurt um afstöðu íbúa til byggingar líkamsræktarstöðvar á Torfnesi.

Könnunin er um 50 spurningar og ætti að taka um 15 mínútur að svara henni. Hægt er að skrá sig aftur inn í könnunina ef ekki er lokið við hana í fyrri tilraunum. Einnig er hægt að kynna sér ítarlega þau gögn varðandi endurbætur Sundhallar sem fyrir liggja og teikningar af nýrri líkamsræktarbyggingu áður en farið er inn í sjálfa könnunina.

Það er mikilvægt að sem best þátttaka fáist í þessari könnun þannig að niðurstöðurnar endurspegli afstöðu allra kjósenda, en ekki aðeins ákveðinna hópa eða þeirra sem áhugasamastir eru. Niðurstöðurnar úr þessari könnun getur bæjarstjórn svo lagt til grundvallar ákvörðunum um þessi mál.

Þeir sem lenda í vandræðum með könnunina, eða þurfa einhverja aðstoð, geta leitað á
bæjarskrifstofu Ísafjarðarbæjar – annað hvort með heimsókn, símtali eða í gegnum Facebook-þráð bæjarins. Einnig verður hægt að fá aðstoð í Blábankanum á Þingeyri. Auk þess er ætlunin að veita aðstoð á Hlíf og í félagsstarfi aldraðra á Flateyri og Suðureyri.

Félagsvísindastofnun hefur lagt sig fram um að könnunin sé þannig úr garði gerð að hún gefi sem sannasta mynd af afstöðu íbúa til þessara mála. Könnunin var unnin í samráði við bæjarfulltrúa þannig að eining væri um það hvaða meginþætti væri spurt um, þó svo að orðalag og uppsetning hafi verið ákvörðun Félagsvísindastofnunar.

Án efa mun fást dýrmæt reynsla af framkvæmd þessarar könnunar og vera má að fleiri slíkar verði gerðar í náinni framtíð ef það þykir vænleg leið til að auka þátttökulýðræði í Ísafjarðarbæ.

Gísli H. Halldórsson, bæjarstjóri.

Könnun Félagsvísindastofnunar

DEILA