Kerfin þurfa að virka

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Við eigum að fara varlega í uppbyggingu fiskeldis. Þessi rödd heyrist víða í umræðunni um fiskeldið. Ennfremur heyrast raddir um að við eigum að vanda okkur, læra af reynslu annarra og fara með gát, náttúran á að njóta vafans. Allt eru þetta heilræði sem ég get tekið undir.

En ég er líka dugleg að benda á að við erum að gera allt þetta. Lengsta umsóknarferlið fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi hefur tekið næstum 7 ár. Stjórnsýslan hefur velt við hverjum steini og framkvæmdaraðilar lagt út þúsundir blaðsíðna af gögnum og rannsóknum og útfært mótvægisaðgerðir til þess að lágmarka áhrifin og leyfa náttúrunni að njóta vafans.

Íslendingar hafa gengið einna lengst allra fiskeldisþjóða í að vernda villta laxastofna. Rúmlega hálft landið er lokað fyrir eldi, firðirnir eru burðarþolsmetnir til þess að meta lífrænt álag , framkvæmdirnar fara í ítarlegt umhverfismat. Hafrannsóknarstofnun hefur lagt mat á erfðablöndun og í þokkabót eru fyrirbyggjandi aðgerðir í notkun og bígerð sem snúa að búnaði, ljósastýringu, stærri seiðum, vöktun í ám og fleiri þáttum. Allt þetta til þess að leyfa náttúrunni að njóta vafans.

Íbúar við Ísafjarðardjúp hafa réttmætar væntingar til uppbyggingar Ísafjarðardjúps, enda er Ísafjarðardjúp innan þess skilgreinda fiskeldissvæðis sem stjórnvöld hafa ákveðið. Þær langþráðu væntingar hafa dofnað við hvert hikst í kerfinu undanfarna mánuði. Það rekur tíðum þó róið sé öllum árum.

Þegar kerfi sem stjórnmálamenn hafa skapað hætta að virka þarf að bregðast við. Að það taki að verða 7 ár að sækja um leyfi til þess að fara af stað á skilgreindu fiskeldissvæði gengur ekki upp. Það er ekki vönduð stjórnsýsla. Það eru slæm vinnubrögð og við þingmenn skuldum bæði íbúum og fyrirtækjum að kerfin virki sem skyldi og skili farsælli niðurstöðu. Umhverfisvæn uppbygging fiskeldis í Ísafjarðardjúpi með mótvægisaðgerðum þarf að hefjast sem fyrst, í sátt við náttúru og til hagsbóta fyrir samfélögin og þjóðarbúið í heild.

Halla Signý Kristjánsdóttir.

DEILA