Íþróttir í Ísafjarðarbæ og framtíðin

Kristján Þór Kristjánsson.

Íþróttir hafa ætíð verið stór hluti af lífi íbúa í Ísafjarðarbæ. Í gegnum árin höfum við átt afreksíþróttafólk, íslandsmeistara og ólympíufara. Alla tíð hefur metnaður verið mikill hjá forsvarsmönnum íþróttafélaganna á svæðinu að gefa öllum tækifæri á að iðka íþróttir hvort sem um er að ræða afreksíþróttafólk eða þá sem hafa gaman að því að iðka íþróttir og njóta þeirra kosta sem því fylgja. Félögin reyna eftir megni að ráða hæfa þjálfara til að vinna með börnunum og gera allt til að börnunum líði vel. Þetta er ekki sjálfsagt mál og mikil vinna liggur hjá félögunum sem reyna að gera sitt besta. Hjá mörgum fjölskyldum snýst lífið að stórum hluta um íþróttir og öllu sem því fylgir. Það getur tekið mikinn tíma og peninga frá fjölskyldum en skilar sér til baka í gleði, vináttu og heilbrigðari einstaklingum.

Aðstaða og aðstöðuleysi

Aðstaða til iðkunar íþrótta er lykilatriði til að íþróttafélögin í bænum geti boðið þá þjónustu sem þau hafa metnað til fyrir alla iðkendur og til að laða að hæfa þjálfara. Aðstaðan í Ísafjarðarbæ er hinsvegar ábótavant. Við eigum flott íþróttahús á Torfnesi en yfir veturinn er það yfirfullt frá morgni til kvölds og færri komast að en vilja. Góð samvinna er milli íþróttafélaganna á Ísafirði og UMFB um að æfa einnig að hluta til í Bolungarvík en það gerir það að verkum að íþróttahúsið þar er einnig fullsetið. Hefur þetta skapað mikinn vanda íþróttafélaga að sinna skyldum sínum og metnaði gagnvart iðkendum.

Staðan á knattspyrnumálum er sérstaklega slæm, knattspyrnudeild Vestra er nánast með enga aðstöðu til almennilegra æfinga og er þá ekki bara verið að tala um viðmið við aðra staði á landinu. Innanhúsknattspyrnu er hægt að iðka með takmörkuðum hætti á veturnar á parketi í yfirfullu íþróttahúsi þar sem knattspyrna tekur tíma frá öðrum íþróttum. Á sumrin er á Ísafirði úrsérgengin gervigrasvöllur frá árinu 2003 sem farinn er að valda meislum á iðkendum niður í barnaflokka. Grasvöllurinn er gamall og lúinn með ónýtu dreni þannig að hann þolir einungis örfáar æfingar á viku. Bætt aðstaða til knattspyrnuiðkunar er mjög aðkallandi, yfirbyggt fjölnota knattspyrnuhús ásamt lagningu gervigrass á aðalvöll er það sem þarf til þess að koma upp frábærri aðstöðu sem myndi einnig létt verulega á íþróttahúsum fyrir aðrar greinar.

Torfnes: knattspyrnuhús, líkamsrækt og sundlaug

Fyrir síðustu kosningar var Framsókn með það á stefnuskrá að reisa fjölnota knattspyrnuhús á Torfnesi og fara í skipulagningu varðandi uppbyggingu sundlaugaraðstöðu á Torfnesi en sundaðstaðan á Ísafirði er barn síns tíma. Ekkert af þessu var gert og meirihlutinn hafði framan af kjörtímabilinu engan áhuga á því að fara í þessi mál heldur var dýrmætum tíma og fjármunum eytt í útipottasenuna við Austurveg sem hefur sem betur fer dregin að mestu til baka. Íþrótthreyfingin hefur bent á það í mörg ár og fyrir síðustu kosningar hversu aðkallandi það er að fá fjölnota knattspyrnuhús líkt og ég rakti hér að ofan. Núverandi meirihluti skellti skollaeyrum við því fyrir síðustu kosningar og lengi vel á kjörtímabilinu. Það er ekki fyrr en síðastliðið haust að málið fékk einhverja athygli en mikið ríður á að klára málið.

Það hefur svo ekki breyst að Framsókn vill sjá Torfnessvæðið sem framtíðaríþróttamiðstöð allra bæjarbúa með sundlaug og líkamsræktarstöð. Verkefnið er umfangsmikið og dýrt og ekki má hlaupa upp til handa og fóta í verkefni upp á mörg hundruð milljónir. Það hlýtur að vera krafa að svona verkefni sé skoðað í þaula t.d. samlegðaráhrif við íþróttahús, sundlaug og líkamsrækt. Samnýting starfsmanna, sameiginleg móttaka, sameiginlegir sturtuklefar fyrir sundlaug og líkamsrækt o.s.fr. Þegar þessari skipulagsvinnu er lokið er hægt að vinna eftir henni í þrepum eins og aðstæður leyfa.

Hugum að öllum bæjarkjörnum

Á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri er einnig haldið úti íþróttastarfi. Þessum krökkum sinna íþróttafélögin Stefnir, Grettir og Höfrungur. Sveitarfélagið ætti að hafa forgöngu í að ræða við félögin um aðstöðuna á stöðunum og hvort hægt sé að bæta þær á einhvern hátt. Einnig er mikilvægt að sinna þeim krökkum sem hafa áhuga á sækja æfingar á Ísafirði að komast þangað. Mikilvægt er að almenningsamgöngur taki mið af því.

Almenningsíþróttir

Almenningsíþróttir eru einnig mjög vinsælar hjá íbúum sveitarfélagsins og er það frábært, þar má nefna göngutúra, hlaup, fjallgöngur, hjól, gönguskíði, skíði og sund. Riddarar Rósu, Ferðafélag Ísfirðinga og fleiri félög hafa gert það að verkum að fleiri hreyfa sig og njóta náttúrunnar á heilsusamlegan hátt. Nýverið var svo gerð fjallahjólabraut á Hnífunum sem nokkir einstaklingar lögðu mikið á sig við að koma á koppinn. Það er mikilvægt að einstaklingar og hópar taki á skarið með framkvæmdir af þessu toga og þarf sveitarfélagið á að styðja við almenningsíþróttir eins og það hefur tækifæri til. Fjölgun hjólabrauta og göngustíga er hluti af því. Hreystigarður er annað verkefni sem sveitarfélagið ætti að skoða að setja upp í sveitarfélaginu.

Klárum þessi atriði á kjörtímabilinu!

Framsókn gerir sér grein fyrir mikilvægi íþrótta og hreyfingar fyrir íbúa bæjarins. Við viljum gera það vel svo það nýtist fyrir íbúa og það sé hugsað til framtíðar.

* Klárum byggingu á fjölnota knattspyrnuhúsi, byrjum haustið 2018.

* Klárum heildarskipulag á Torfnessvæðinu í kringum íþróttahúsið þar sem við ákveðum að framtíð sundlaugar og líkamsræktar sé á Torfnesi.

* Klárum að setja gervigras á aðalleikvang í knattspyrnu.

* Gerum úttekt á íþróttasvæðum á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri og vinnum þarfagreiningu í samstarfi við íþróttafélögin.

* Finna leiðir til þess að fjölga opnunardögum á Skíðasvæði Ísafjarðarbæjar.

* Styðjum verkefni sem nýtast til almenningsíþrótta.

Verum tilbúin

Ekki er auðsvarað af hverju íþróttir og hreyfing skipta samfélagið svona miklu máli. Ísafjarðarbær er ekki eini bærinn þar sem íþróttir hafa áhrif, íþróttir eru með vinsælasta áhorfsefni í heiminum hvort sem er beint eða í sjónvarpi. Íþróttir eru iðkaðar í hverju einasta landi, borg, bæ og þorpi.

En af hverju á sveitarfélagið Ísafjarðarbær að leggja húsnæði og peninga í íþróttaiðkun? Mitt svar er einfalt. Íþróttir gera okkur og börnin okkar heilbrigðari, íþróttir auka námsgetu, kenna okkar aga og skapa vináttu og félaga jafnvel til lífstíðar. Almenningsíþróttir gera okkur heilbrigðari og styrkja vináttu. Íþróttir vekja samtöl á kaffistofum, kveikja tilfinningar góðar og slæmar innra með okkur. Það er einmitt stór hluti af þessu öllu saman. Góð almennings og keppnisíþróttaaðstaða og flott íþróttafélög gera samfélög eftirsóknarverð.

Það er stefna okkar að bjóða upp á eftirsóknarvert samfélag sem fólk vill flytja til og búa á og það er stefna okkar að okkur fjölgi til framtíðar. Þess vegna eiga sveitarfélög að styrkja íþróttastarf og íþróttaðstöðu, til að íbúum líði vel og að við séum eftirsóknarvert samfélag. Verum tilbúin í framtíðina.

Kristján Þór Kristjánsson, svæðisstjóri CCEP og formaður barna og unglingaráðs Vestra í knattspyrnu. Skipar 3. sæti Framsóknar í Ísafjarðarbæ í bæjarstjórnarkosningunum í vor.

DEILA