Hjartað í bænum – um skólamál á Flateyri

Grænigarður á Flateyri.

Bæjarfulltrúar Í-listans, bæjarstjóri og nýr framboðslisti Í-listans trúir því að á Flateyri sé hægt að byggja upp stærra og sterkara samfélag en þar er í dag. Við teljum ekki bara að það sé mögulegt að á Flateyri verði jákvæð íbúaþróun, við teljum líka að það sé ekkert eins mikilvægt fyrir sveitarfélagið Ísafjarðarbæ – og annarri byggð á norðanverðum Vestfjörðum – eins og að jákvæð íbúaþróun og sjálfbær vöxtur eigi sér stað jafnt í minni þorpunum sem hinum stærri. Án minni þorpanna og dreifbýlisins, með sínum lögbýlum og landbúnaði, visnar sveitarfélagið – líkt og það hefur reyndar verið að gera frá því í lok síðustu aldar þó að nýverið hafi loks orðið viðsnúningur.

Þjónusta allstaðar

Ef við bætum þjónustuna í öllum byggðum og dreifbýli sveitarfélagsins þannig að hún verði til fyrirmyndar, erum við um leið að fjölga búsetuvalkostum þeirra sem langar að flytja í faðm náttúrunnar og kyrrðarinnar á Vestfjörðum. Fólk sem vill hefja nýtt líf utan höfuðborgarinnar gerir, ekki síður en við, kröfur um þjónustu sem stenst samjöfnuð við það besta sem býðst á Íslandi. Við erum ekki komin á þann stað, en við nálgumst hann. Mikið verk er óunnið enn, en vel gerlegt ef stefnan er sett á það. Nú er t.d. unnið að því að finna leið til að þjónusta lögbýli í sveitarfélaginu með ásættanlega sorphirðu og hefur bæjarráð Ísafjaðarbæjar verið einhuga um mikilvægi þess, en þarna hefur pottur verið brotinn.

Hjartað í samfélaginu

Líklega er ekkert mikilvægara því unga fólki sem leitar sér að vænlegum stað til að ala upp börnin sín og búa sér þar gott líf en að veitt sé góð skólaþjónusta. Leikskólar og grunnskólar þessa lands eiga að hafa það sem grunnmarkmið að vísa börnunum okkar leiðina til að verða besta útgáfan af sjálfum sér, þannig að þau geti nýtt styrkleika sína, og tækifæri sem bjóðast, sér og sínu samfélagi til framdráttar. Við eigum að hafa getu til að ryðja hindrunum úr vegi svo að börnin okkar hafi möguleika til að blómstra í samfélaginu.

Í þessu ljósi er ekki óeðlilegt að íbúar Flateyrar hafa brugðist harkalega við, allt frá aldamótum, öllum þeim hugmyndum sem þeir hafa talið ógnun við skólastarf á Flateyri. Skólinn er hjartað í bænum, eins og íbúarnir hafa margoft bent á. Ef skólinn er ekki til staðar í þorpinu þá verður það mun lakari búsetuvalkostur fyrir íbúana og þá sem annars gætu hugsað sér að setjast að á Flateyri. Láglendi og mögulegt byggingarland er takmarkað á Vestfjörðum. Á Flateyri er auðveldlega rými fyrir 500-1000 íbúa – og kannski fleiri. Það væri því skammsýni að gera ekki allt sem frekast er unnt til að tryggja möguleika Flateyrar til vaxtar – og sama gildir auðvitað um aðrar byggðir í sveitarfélaginu.

Grænigarður – átökin á Flateyri

Bæjarstjórn ákvað í lok árs 2016 að leggja til breytingar á skólastarfi á Flateyri þannig að leikskóli og grunnskóli yrðu undir sama þaki, með það að markmiði að styrkja skólastarf og búa til öflugri starfseiningu. Ekkert bjó að baki þeirri ákvörðun annað en sú trú að það styrki skólastarf á Flateyri. Það myndi auðvelda samstarf og samnýtingu starfsfólks og auka þannig getu þess til að leiða jákvæða skólaþróun – margar hendur vinna létt verk, eins og þar stendur. Eftir því sem best er vitað höfðu allir bæjarfulltrúar þetta sama fallega markmið og studdu þessa ákvörðun.

Margir íbúar á Flateyri töldu að með þessari ákvörðun væri vegið að húsinu Grænagarði, fallegri og eftirminnilegri gjöf frá frændum okkar Færeyingum. Þeir töldu sig jafnvel sjá að flutningur í sameiginlegt húsnæði yrði ekki til bóta. Í ljósi biturrar reynslu liðinna áratuga var ekki óvænt að Flateyringar tækju hugmyndum um breytingar með tortryggni og óttuðust hið versta.

Í-listinn hefur sýnt það á því kjörtímabili sem er að líða að hans fulltrúar vilja hlusta á íbúana og koma til móts við þá þegar það er mögulegt. Það var ekki bara Í-listinn, heldur fulltrúar allra lista í bæjarstjórn og nánast allir bæjarfulltrúar sem mættu til kraftmikils íbúafundar á Flateyri til að hlusta á sjónarmið íbúanna varðandi þetta mál. Einhverjir urðu sárir á þeim fundi en flest þau sár ættu nú að vera gróin. Í kjölfar þessa fundar var bæjarstjórn einhuga um að fallast á tillögu íbúa Flateyrar um að starfshópur, með aðkomu íbúa, fjallaði ítarlegar um málið og mögulega skólaþróun á Flateyri. Sveigt var af leið til að koma til móts við íbúana og er von á niðurstöðum úr starfshópnum nú í sumar.

Gæðaskóli á Flateyri til framtíðar

Við getum ekki talað fyrir munn allrar bæjarstjórnar, en bæjarfulltrúar Í-listans og framboðslisti Í-listans 2018 hafa það sem eitt af sínum helstu markmiðum að tryggja að áfram verði grunnskóli og leikskóli á Flateyri – og að sjálfsögðu Þingeyri og Suðureyri. Það er ákaflega mikilvægt að börn eigi áfram kost á skólasókn á Flateyri því það er gott að vita af börnum sínum í nágrenni heimilis og kunnugra. Eina leiðin til að halda úti skólastarfi á Flateyri er að gæði skólastarfs verði slík að foreldrar telji fullnægjandi, ef svo er ekki þá kunna þau að fara annað með börnin. Af þessum sökum þarf að kappkosta að skólastarf á Flateyri teljist afbragðsgott – og helst framúrskarandi. Við munum áfram leita leiða til að svo megi verða og það verður að gerast í sátt við íbúa.

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri

Arna Lára Jónsdóttir, formaður bæjarráðs

DEILA