Hélt erindi um fjörugróður

Ætihvönn.

Fjaran og allt sem í henni vex og það sem í hana kemur, var lengi vel talið með hlunnindum allra jarða sem áttu land að sjó. Enn í dag eiga þó nokkrir bændur rekafjörur og sumar kindur fara á fjörubeit, en mikilvægi þessara hlunninda hefur engu að síður dalað frá því sem áður var. Mánudaginn 26. mars síðastliðinn var vakin athygli á þessum hlunnindum á Byggðasafni Dalamanna, þegar þau Hafdís Sturlaugsdóttir, landnýtingarráðunautur hjá Náttúrustofu Vestfjarða og Matthías Lýðsson, bóndi í Húsavík, héldu fyrirlestra um fjörugróður og rekavið.

Hafdís fjallaði um fjörugróður í sínu erindi og þá bæði gróður sem vex í og við fjöru. Hún fræddi viðstadda um það hvernig þessar jurtir nýtast fuglum og búfénaði. Þar má til dæmis nefna að gæsir og álftir sækja mikið á sjávarfitjar, það er að segja fjöru sem flæðir yfir á stórstraumsflóði og jafnvel oftar. Á sjávarfitjum má finna graskennda jurt sem nefnist marhálmur og fuglunum þykir vera lostæti. Hafdís sagði í samtali við BB að það væru miklar sjávarfitjar af þessu tagi í Gufufirði og Djúpafirði við norðanverðan Breiðafjörð og að kindur væru oft á beit á slíkum svæðum. Marhálmur var einnig notaður í einangrun húsa og rúmdýnur hér áður fyrr.

Mannfólkið nýtti þó fleiri jurtir en marhálminn að sögn Hafdísar og margir hafa heyrt um skarfakál, sem er snemmær jurt og var mikið notuð við skyrbjúg vegna þess hve rík hún er af C-vítamíni. Skarfakál þykir ágætt á bragðið snemma á vorin, en verður sterkari eftir því sem líður á. Aðrar plöntur úr fjöruríkinu, sem voru nýttar og eru jafnvel enn, eru ætihvönn, fjöruarfi og fjörukál og Hafdís segir að þessar tvær síðastnefndu séu ágætar í salat.

Fyrirlestur Hafdísar Sturlaugsdóttur á Byggðasafni Dalamanna var haldinn í tilefni af menningararfsári Evrópu 2018. Markmið þess er að vekja athygli á fjölbreyttum menningararfi Evrópu, en strandmenning er þema ársins hér á landi. Undir strandmenningu flokkast til dæmis handverk, fornleifar, hús og mannvirki, gripir, bátar, sögur og ýmislegt fleira.

Sæbjörg
sabjorg@gmail.com

DEILA