Helena

Helena Jónsdóttir.

Margir Önfirðingar urðu hvumsa við þegar Helena Jónsdóttir geystist inn í bæjarlífið á Flateyri og sagði í blaðaviðtali að hún hefði verið fastagestur þar undanfarin tíu ár. „Hver er hún? Hverjum er hún skyld?“, heyrðist hvískrað í kaffistofum og við eldhúsborð, án þess að svör fengjust. Á útmánuðum var Helena ráðin framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri og hún ætlar sér góða hluti með skólann og eyrina fögru. En hver er hún og hvaðan kemur hún?

„Ég er 45 ára gömul kona, sem þýðir að mér finnst ég vera orðin svolítið þroskuð án þess þó að vera bundin af fyrirfram ákveðnum framtíðarplönum. Mamma er dálítið að stressa sig yfir því en ég geri aldrei fimm ára plan, aldrei þriggja ára plan, heldur hoppa bara út í verkefnin,“ segir Helena í samtali við BB. Það má með sanni segja að hún hafi hoppað af fullum krafti inn í undirbúning Lýðháskólans og unnið um leið hug og hjörtu Flateyringa.

Helena segist vera mikið borgarbarn en líði samt afskaplega vel í sveitinni. „Ég er svona týpan sem vippa mér inn í fjós til þess að fræðast og læra hvað gerist þar og sit svo kannski niðri á bryggju með filterslausan camel og spjalla við karlana. Móðir mín vildi einu sinni senda mig til New York, en pabbi tók í taumana og sendi mig í sveit. Þar lærði ég síðan að drekka nýmjólk og setja tvöfalt lag af smjöri á brauð,“ segir hún og hlær hátt. Helena er líka mikil skíðakona og sést ósjaldan rölta upp fjöllin í Önundarfirði á fjallaskíðunum sínum og renna sér síðan dátt niður. Um páskana sást hún jafnvel stikla á skerum í fjörunni í leit að krækling, svo það er greinilegt að borgarbarnið hefur fundið sinn stað í náttúru Önundarfjarðar.

En Helena hefur ekki alltaf stiklað á skerjum eða skíðað niður brekkur. Áður en leiðin lá vestur á firði dvaldi Helena, sem er klínískur sálfræðingur að mennt, í fjórum löndum sem starfsmaður Lækna án landamæra. Hún var í Afganistan, Líbanon, Egyptalandi og tvisvar í Suður-Súdan. Hjá Læknum án landamæra starfar Helena sem ráðgefandi deildarstjóri yfir hópi af sálfræðingum eða jafnvel ómenntuðum sjálfboðaliðum. Hún segir starfið vera ákaflega krefjandi, þar sem það felst í því að veita fólki í erfiðri stöðu sálfræðiþjónustu og stundum er fólkið sem hún vinnur með í lítið betri stöðu en sjúklingarnir. „Starfið er jú krefjandi að því leytinu til að þú ert að fara í allt aðra menningu,“ segir Helena. Í Suður-Súdan vorum við að vinna í flóttamannabúðum þar sem enginn af starfsmönnum mínum var menntaður til þeirra starfa sem þeir sinntu og ég þurfti til dæmis að kenna deildarstjóranum að senda tölvupóst, en hann hafði aldrei séð tölvu áður. Í Egyptalandi vann ég með fólki sem hafði orðið fyrir mjög alvarlegu ofbeldi og jafnvel pyntingum og sýn mín á mannkynið bara breyttist,“ segir hún með örlítilli sorg. „En svo er starfið líka bara krefjandi því við búum við mjög erfiðar aðstæður. Í Afganistan til dæmis var ég bara lokuð inni á spítalanum eða húsinu sem við bjuggum í og í Súdan bjó ég í moldarkofa,“ bætir Helena við og það er auðheyrt að hún hefur upplifað mun meira en flestir sem setjast að á Flateyri.

En af hverju Flateyri? Helena segir að hana hafi dreymt um það í fjölda ára að búa á eyrinni og flestir í hennar nærumhverfi orðnir hundleiðir á að hlusta á hana tala um þessa drauma sína. „Þegar ég kom heim til Íslands þá sá ég auglýsinguna um að það vantaði skólastjóra fyrir Lýðháskólann á Flateyri en ég hugsaði að þetta væri ekkert fyrir mig. Ég ætlaði að taka mér nokkurra mánaða pásu. Svo fyrir tilviljun var ég læst úti þar sem ég dvaldi á Flateyri og ákvað að fara í heimsókn til Runólfs, sem er forsprakkinn í þessu öllu saman. Einhvernveginn komumst við að því að við vorum bara perfect match,“ segir þessi káta kona og hlær glöð.

Hún segir að móttökurnar á Flateyri hafa verið ótrúlega góðar, allir taki henni opnum örmum og heimboðin séu óteljandi. „Allt mitt starf þessa dagana felst í að biðja um greiða og það er aldrei neitt mál. Þetta er vissulega eina 150 manna sjávarþorpið sem ég hef búið í en í mínum huga er þetta einstakt. Stuðningurinn við hugmyndina um Lýðháskóla er líka svo magnaður. Ekki bara á Flateyri hjá fólkinu sem býr hér, og ekki bara í heimabyggð og hjá sveitarfélögunum í kring, heldur líka hjá þingmönnum og ráðherrum sem hafa sýnt þessu verkefni ótrúlegan áhuga og stuðning.“

Til stendur að taka á móti að minnsta kosti 20 nemendum í Lýðháskólann í haust og opna eina námsbraut. Það er umhverfis- og útivistarbraut, þar sem fólk mun læra um umhverfið, sjálfbærni, hvernig náttúran virkar og hegðar sér, hvernig hægt er að ferðast um hana á öruggan hátt og síðast en ekki síst hvernig hægt er að njóta náttúrunnar á ýmsan hátt. Unnið er að því að finna fjármagn, svo hægt verði að fara af stað með aðra námsbraut og þá tvöfalt fleiri nemendur, en það mun skýrast á næstu dögum. Ekki er gert ráð fyrir miklu fjármagni í markaðsstarf, heldur munu auglýsingar að mestu leyti birtast á samfélagsmiðlum og vera ætlaðar íslenskumælandi fólki til að byrja með. Helena heldur áfram, „Það er von okkar að sá samhugur sem við höfum fundið fyrir gagnvart þessu magnaða verkefni leiði til þess að allir leggi sitt af mörkum til að kynna skólann sem víðast og dreifa upplýsingum sem birtast á samfélagsmiðlum.“

„Planið hjá mér er að verða skólastjóri Lýðháskólans hérna á Flateyri. Ég er ekki með varaplan og vil ekki hafa það því Lýðháskólinn mun verða að veruleika,“ segir Helena kokhraust. Miðað við kraftinn í þessari glaðsinna konu þá er það ekki vafamál að næsta haust mun verða kominn Lýðháskóli á Flateyri.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA