Heima er þar sem hjartað slær

Aron Guðmundsson.

Árið 2015 markaði þáttaskil í mínu lífi, eftir tveggja ára pásu frá námi eftir að ég hafði útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Ísafirði ákvað ég að það væri kominn tími fyrir mig til þess að mennta mig frekar. Þetta var erfið ákvörðun að taka þar sem þetta þýddi að ég þyrfti að flytja frá mínum heimabæ og halda í átt til höfuðborgarinnar. Sporin urðu síðan töluvert þyngri þegar að móðir mín lést þetta sama ár um mitt sumarið eftir erfiða baráttu við MND sjúkdóminn.

Lífið heldur þrátt fyrir allt áfram, nú þremur árum síðar lá leið mín aftur heim í Ísafjarðarbæ. Það var alltaf markmiðið að snúa aftur heim en það var samt sem áður ekki sjálfgefið. Í nútímasamfélagi er samkeppni á öllum sviðum og ótal tækifæri í boði fyrir einstaklinga. Það er því að miklu að huga ef sveitarfélag ætlar að standast samkeppni frá öðrum stöðum til þess að halda í fólkið sem fyrir er á svæðinu sem og að vera fýsilegur kostur fyrir fólk sem gæti hugsað sér að setjast að í sveitarfélaginu.

Það eru spennandi tímar framundan. Markviss skref hafa verið tekin á kjörtímabilinu sem nú er að renna sitt skeið í átt að því að bæta þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir sem og til þess að fegra ásýnd þeirra byggðarkjarna sem mynda þetta frábæra sveitarfélag. Valdið hefur í auknum mæli verið fært til íbúanna, það hefur Í listinn sýnt með verkum sínum. Styrking hverfaráðanna hefur valdið því að sjónarmið og kröfur íbúanna komast betur til skila, fjárfestingarfé var veitt til hverfaráðanna, stofnuð voru öldungraráð og ungmenna ráð svo að auðveldara væri fyrir þessa hópa að koma sjónarmiðum sínum á framæri. Þetta er stefna sem Í listinn vill halda áfram að þróa, aukið íbúalýðræði!

Við getum leyft okkur að vera bjartsýn. Ég finn það og sé það á þeim hlutum sem eru að gerast í kringum okkur að það er að koma aftur trú á samfélaginu hér fyrir vestan og baráttuhugurinn er mikill. Ég vil leggja mitt af mörkum í þeirri vinnu!

Aron Guðmundsson skipar 2.sæti á lista Í listans fyrir komandi sveitastjórnarkosningar.

DEILA