Hættir sem sveitarstjóri eftir kosningar

Andrea Kristín Jónsdóttir.

Andrea Kristín Jónsdóttir hefur ákveðið að gefa ekki aftur kost á sér sem sveitarstjóri Strandabyggðar eftir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Andrea var ráðin sveitarstjóri á miðju kjörtímabili sumarið 2012 og síðan endurráðin eftir kosningarnar 2014. Hún hefur því starfað sem sveitarstjóri síðustu 6 árin. Fréttamaður BB.is hafði samband við Andreu sem sagði ástæðuna fyrir því að hún gæfi ekki kost á sér aftur breytingu á hennar persónulegu högum: „Ég þarf að geta verið lausari við og meira frá héðan,“ segir Andrea.

Andrea segir að tímabilið sem sveitarstjóri hafa verið henni mjög ánægjulegt: „Þetta er búið að vera frábær tími, ofboðslega gefandi og lærdómsríkur. Búsetan hér hefur veitt mér alveg ómælda gleði,“ segir hún glöð í bragði. Hún hefur ekki enn ákveðið hvað tekur við næst: „Það er bara pínulítið opin bók, það er óákveðið enn sem komið er. Nú er ég bara að klára starfið mitt og er ekki búin að hugsa alveg niðurnjörvað hvað tekur við. Ég er alltaf með listamannadraum og hugsa að ég byrji á að leika mér aðeins á því sviði, áður en ég ákveð mig,“ segir Andrea.

Aðspurð hver séu stærstu málin framundan í Strandabyggð svarar hún: „Það er náttúrulega að snúa við íbúaþróuninni, það þarf líka að auka fjölbreytni í atvinnumálum og stíga sterkar inn í ferðaþjónustuna. Svo þurfum við að gera okkur gildari á Vestfjarðavísu og landsvísu, kynna okkur betur. Við vitum hvað er gott að vera hérna, við þurfum að leyfa öðrum að njóta þess líka,“ segir Andrea að lokum.

Dagrún Ósk

DEILA