Yfirlýsing frá starfsmannafélagi Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Heilbrigðisstofnun Vestfjarðar bíður enn svara frá ráðuneytinu varðandi ráðningu nýs forstjóra.

Í yfirlýsingu sem stjórn starfsmannafélags Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða 2017 til 2018 sendi frá sér, vegna fréttaflutnings af uppsögnum yfirmanna hjá stofnuninni, kemur fram að starfsfólki finnist erfitt að sitja undir fréttum um slæman starfsanda á vinnustaðnum. Óskar stjórnin eftir því að þeirra hlið komi einnig fram, en samkvæmt yfirlýsingunni hefur umræða fjölmiðla verið mjög einhliða. Stjórn starfsmannafélagsins tekur fram að á stofnuninni ríki góður starfsandi og vinskapur meðal almenns starfsfólks. Á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða starfa um 250 manns, á Ísafirði og Patreksfirði.

Yfirlýsing frá stjórn starfsmannafélags Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða 2017 og 2018.

Undanfarna daga hefur í fjölmiðlum verið fjallað um uppsagnir stjórnenda á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Fram kemur í fréttum að málið snúist að hluta til um slæman starfsanda, erfiðan vinnumóral, þungt andrúmsloft og grasserandi neikvæðni. Okkur starfsfólki finnst erfitt að sitja undir þessum fréttum, okkur sárnar og finnst að okkur vegið með þessari framsetningu.

Víða um land hafa verið erfiðleikar í rekstri heilbrigðisstofnana. Illa hefur gengið að manna lykilstöður og ekki hefur fengist nægjanlegt fjármagn til rekstrar. Auk fyrrgreindra erfiðleika hafa komið upp deilur milli lækna hér á Hvest og stofnunin hefur einnig gengið í gegnum stórt sameiningarferli sem hefur haft í för með sér breytingar á starfsemi. Allir þessir þættir skapa aukið álag á starfsfólk. Þrátt fyrir allt sem gengið hefur á þá hefur ríkt góður starfsandi og vinskapur meðal almenns starfsfólks. Við höfum eftir fremsta megni lagt okkur fram við að sinna okkar störfum og samskiptum við skjólstæðinga þannig að fagmennska og gæði séu í forgangi. Gert okkar ítrasta til að halda skjólstæðingum utan við þær deilur sem upp hafa komið og reynt að miðla áfram gleðinni sem felst í þeim gefandi störfum sem við heilbrigðisstarfsfólk sinnum. Starfsmannafélag starfar af krafti við stofnunina og félagslíf verið mikið og gott. Haldnar eru árshátíðir þar sem allir leggja sig fram við að skemmta sér og öðrum. Farið í óvissuferðir, gönguferðir, haldin fjölskyldugrill og skíðadagar svo nokkuð sé nefnt. Þátttaka í slíkum viðburðum eflir starfsanda og auðveldar nýju starfsfólki að kynnast samstarfsfólki og falla inn i hópinn.

Okkur þykir leitt að upplifun fráfarandi starfsmanna hafi verið sú sem í fréttum er lýst en viljum árétta að almennt meðal starfsmanna er góður starfsandi og við hlökkum til að þjónusta íbúa Vestfjarða á komandi árum með faglegu starfi í heilbrigðisþjónustu.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA