Fyrirhuguð stækkun ekki líkleg til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið

Sjókvíar Hábrúnar í Skutulsfirði.

Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð stækkun fiskeldis Hábrúnar í Skutulsfirði í Ísafjarðardjúpi sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Fyrirhuguð stækkun er úr 400 tonnum í 700 tonn. Þetta kom fram á vef mbl.is í gær. Niðurstaða Skipulagsstofnunar stangast á við niðurstöðu Umhverfisstofnunar, sem komst að þeirri niðurstöðu fyrir rúmum mánuði að aukning um 300 tonn hefði talsverð umhverfisáhrif í för með sér.

Áform Hábrúnar fela í sér framleiðslu á allt að 700 tonnum af þorski og regnbogasilungi, þar sem miðað er við að lífmassi regnbogasilungs fari aldrei yfir 650 tonn og lífmassi þorsks aldrei yfir 50 tonn. Fram kemur í fréttinni að Skipulagsstofnun telji að helstu umhverfisáhrifin kunni að felast í áhrifum á botndýralíf þar sem hvíld svæði verði ekki eins og best verði á kosið, vegna nálægðar eldissvæðanna við hvert annað og getu Skutulsfjarðar til að taka við auknu lífrænu álagi.

Einnig kemur fram að staðfest hafi verið af hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar að innsiglingarlína inn Skutulsfjörð sé töluvert austan við það svæði sem úthlutað hafi verið undir fiskeldi. Hafnaryfirvöld á Ísafirði gera af þeim sökum ekki athugasemd við að eldiskvíar Hábrúnar verði áfram á því svæði sem úthlutað var.

Fram kemur í niðurstöðum stofnunarinnar að eldissvæðin séu þrjú og nálægðin á milli þeirra það mikil að áhrifa kunni að gæta á milli þeirra. “Þetta á helst við hættuna á smiti á milli eldissvæða, þar sem öll þrjú eldissvæðin eru skilgreind sem eitt sjúkdómsvarnarsvæði, en síður við uppsöfnun lífrænna úrgangsefna. Úrgangsmyndun mun ávallt fylgja sjókvíaeldi og ekki er tekist á um það, heldur spurninguna um getu viðkomandi svæðis til þess að hreinsa sig með náttúrulegum hætti og getu viðtakans til þess að takast á við það lífræna álag sem eldinu fylgir.”

Það er undir dreifistraumum Skutulsfjarðar komið hvernig geta svæðisins til að takast á við lífrænt álag er. Telur Skipulagsstofnun að áhrif eldisins á vistkerfi botnsins sé mjög staðbundið og færslur á eldiskvíum innan eldissvæðisins, sem ráðgerðar eru, munu létta á því álagi sem fylgir kvíunum.

“Heildaráhrif á vistkerfi svæðisins utan kvíasvæðisins ættu að vera óveruleg. Skipulagsstofnun telur líkleg í ljósi framlagðra gagna að áhrif á botndýralíf séu tímabundin og að mestu afturkræf, en það verður að sannreyna með vöktun. Með vöktun ætti að fást niðurstaða til þess að meta raunverulegt lífrænt álag eldisins og getu svæðisins til þess að takast á við það. Reynist álagið of mikið verður að grípa til aðgerða í gegnum leyfisveitingar, en óraunhæft er að sannreyna lífrænt álag og uppsöfnun næringarefna með öðrum hætti.”

Samkvæmt frétt mbl.is telur Skipulagsstofnun að Hábrún hafi brugðist við þeim álitaefnum sem leiddu til þess að áformað 900 tonna þorskeldi Álfsfells var úrskurðað matsskylt af umhverfisráðherra árið 2011, og ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 2017 þar sem áform Hábrúnar um 1000 tonna eldi þorsks og silungs skyldi matsskylt.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA