Eru allir sammála um Teigsskóg?

Karl Kristjánsson. Mynd fengin af vef Reykhólahrepps.

Það er ekki algilt að sjónarmið fólks séu vegin að jöfnu og stundum vega sumar raddir þyngra en aðrar. Allir ættu þó að geta verið sammála um að allir græða á því að hlusta á sjónarmið annarra en sín eigin til að þess að geta vegið og metið og ákvarðað eigin skoðun. Á vef Reykhólahrepps er aðsend grein frá Karli Kristjánssyni, sveitarstjórnarfulltrúa í Reykhólahreppi. Hann talar um þau áhrif sem maðurinn hefur haft á landslag og gróður, bæði með ræktun búfjár og svo seinna með vinnuvélum. Hann skrifar ennfremur: „Nú er svo komið að á láglendi landsins er búsetulandslag ríkjandi. Afmörkuð landsvæði sem kalla má „landnámsland“ og eru lítið eða óröskuð af búsetu mannsins má telja á fingrum annarrar handar. Teigsskógur í Þorskafirði er eitt þeirra svæða. Hlíðin á milli Grafar og Hallsteinsness í Þorskafirði er eitt heilstæðasta vistkerfið sem til er á landinu sem er „viði vaxið milli fjalls og fjöru.“

Karl skrifar jafnframt að í Teigskógi séu meðal fegurstu gönguleiða sem finnast á landinu, bæði innan um gróður og í fjöru. Karl skorar á sveitunga sína, Vegagerðina, þingmenn og fleiri, í að standa vörð um náttúruna og lífríki sveitarinnar því hann telur ekki rétt að fórna dýrmætum náttúruperlum fyrir vegi og bendir þeim líka á: „Að losa málið úr því átakaferli sem það hefur verið í alltof lengi og virða niðurstöðu Hæstaréttar frá 2009, virða náttúruverndarlög og lög um vernd Breiðafjarðar, niðurstöðu umhverfismatsins frá 23. mars í fyrra og láta af fordæmalausu þráhyggjustagli við að reyna að þræla vegi í gegnum skóginn og eyðileggja með því fágæta náttúruperlu, en snúa sér frekar af krafti að því að fullhanna og fjármagna nýjan veg um Gufudalssveit með jarðgöngum undir Hjallaháls.“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA