Bugða í Botni með tvo páskahrúta

Bugða, níu ára gömul ær, með páskalömbin sín.

Náttúran og skepnurnar eiga það til að taka málin í sínar eigin hendur og klaufir. Ærin Bugða í Botni í Súgandafirði er ein af þeim en laugardaginn 31. mars síðastliðinn bar hún tveimur hrútlömbum. Að öllu jöfnu hefst sauðburður ekki fyrr en í maí en Helga Guðný Kristjánsdóttir, bóndi í Botni, sagði í samtali við BB.is að hún ætti von á nokkrum lömbum til viðbótar svona snemma. „Hún Bugða mín átti að falla í haust en það dróst að farga örfáum gamalám og þar á meðal henni. Svo ég hlakka bara til að sjá hvað kemur frá hinum,“ segir Helga Guðný. Bugða er skemmtilegt nafn á ær en Helga segir að hún hafi nefnt allar ærnar úr þessum árgangi, eða 2009, eftir árnöfnum. „Ég reyndi þá að vísa í lit þeirra með nafninu, lögun horna eða annað einkenni sem hægt væri að nota,“ segir Helga Guðný en eins og sést á myndinni ber Bugða lítil og aftursveigð, bugðótt horn.

Sæbjörg
sabjorg@gmail.com

DEILA