Bú eða bremsa?

Frá Árneshreppi

Uppbygging raforkumála á Vestfjörðum hefur verið í brennidepli að undanförnu. Ræður þar mestu að þar stöndum við langt að baki öðrum íbúum landsins. Það er óásættanlegt og heftir uppbyggingu atvinnulífs. Öryggi í raforkumálum er að auki einn af lykilþáttum þess sem almenningur veltir fyrir sér áður en framtíðarbúseta er ákveðin.

Í framlínu þeirra er nú blása til sóknar í orkumálum Vestfjarða standa einkafyrirtæki þrátt fyrir að stærstur hluti raforkuframleiðslunnar á landinu sé í höndum opinberra fyrirtækja. Sú staðreynd leiðir hugann að langstærsta orkufyrirtæki okkar landshluta, Orkubúi Vestfjarða. Um þessar mundir eru fjörtíu ár síðan það var stofnað af sveitarfélögum á Vestfjörðum og Rafmagnsveitum ríkisins. Lögðu sveitarfélögin og ríkið, sem eigandi Rafmagnsveitna ríkisins, virkjanir sínar inn í hið nýja félag. Ríkti á þeim tíma mikil bjartsýni um það forystuhlutverk sem Orkubúinu var ætlað að vera í framleiðslu og dreifingu raforku á Vestfjörðum, enda víða pottur brotinn í þá daga.

Fjörtíu ár eru langur tími og á þeim tíma hefur raforkuframleiðsla í landinu meira en nífaldast. Á sama tíma hefur aðeins ein ný virkjun verið reist frá grunni á vegum Orkubús Vestjarða þ.e. lítil virkjun í Tungudal, sem nýtir vatn er óvænt tók að renna úr Vestfjarðagöngum sælla minninga. Nokkrar svokallaðar bændavirkjanir hafa risið á Vestfjörðum á undanförnum árum og má því í raun segja að bændastéttin hafi verið í forystu í raforkuframleiðslu allt þar til Hvalárvirkjun kom til skjalanna. Hvers vegna forystuhlutverkið hefur ekki verið í höndum Orkubúsins skal ósagt látið en óneitanlega vekur það athygli.

Annar þáttur um forystuleysi í orkumálum opinberaðist á dögunum. Þá var til umræðu uppbygging á hraðhleðslustöðvum víðs vegar um landið með þeim orðum að loksins yrði „hringveginum“ lokað í þeirri uppbyggingu. Á því korti voru Vestfirðir berstrípaðir. Orka náttúrunnar hefur leitt þessa uppbyggingu um landið. Hvers vegna hefur Orkubú Vestfjarða ekki ennþá komið upp hraðhleðslustöð á Vestfjörðum? Ef marka má fréttir fékk fyrirtækið opinberan styrk til þess verkefnis á árinu 2016. Hafi slík stöð verið tekin í notkun hér um slóðir hefur það farið hljótt.

Áform um virkjun Hvalár á vegum Vesturafls er  mikið og löngu tímabært fagnaðarefni. Þar er um að ræða virkjun sem enginn ágreiningur var um, í annars miklum deilum um virkjunarkosti í Rammaáætlun. Sveitarstjórn Árneshrepps, sem fer með skipulagsvaldi á virkjunarsvæðinu, hefur samþykkt virkjunina. Þar verður mikið framfaraskref stigið með hagsmuni mannlífs í framtíðinni í huga  líkt og kom fram í ágætu viðtali við Evu Sigurbjörnsdóttur hins ötula oddvita Árneshrepps á bb.is.

Á sama tíma berast fréttir af því að Orkubú Vestfjarða standi í vegi fyrir lítilli virkjun á vegum einkaaðila í Skutulsfirði vegna vatnsréttinda, sem hugsanlega eru í eigu þess, en það hefur ekki séð ástæðu til að nýta á þeim fjórum áratugum sem liðnir eru frá stofnun þess. Er þó potturinn ennþá víða brotinn líkt og fyrir fjörtíu árum.

Svona getur nú lífið verið margslungið.

Stakkur

 

DEILA