Blessaðir morgnarnir

Klukkan er 06:13. Tími til að fara á fætur segja börnin. Nei, segir B-manneskjan, það er ennþá nótt ástin mín.

Klukkan er 06:15. Tími til að fara á fætur segja börnin. Nei, segir B-manneskjan, það er bjart úti, en það er ennþá nótt ástin mín. Svona sumarnótt þú veist…

Klukkan er 06:16. Það er þögn frammi.

B-manneskjan glennir upp augun þar sem hún liggur í rúminu. Hún finnur þessa tilfinningu gjósa upp sem maður fær svo oft þegar þögnin er orðinn fyrirboði einhvers og skakklappast á fætur. Úff, jæja. Það er ekkert hræðilegt að gerast. Þau eru bara að leika sér.

Svefndrukkin og sljó dröslar B-manneskjan morgunmat á borðið, kyssir litla kolla og hellir uppá kaffi. Úti er veðrið ótrúlega fallegt, sól en örlítið kalt og ennþá glittir í snjó hér og þar. Á meðan kaffið bruggast á sniglahraða lítur hún yfir morgunverðarborðið þar sem afkvæmin næra sig. Börnin morgunhressu eru þrjú. Þau eru öll á leikskólaaldri og stundum finnst mér þau alltaf hafa verið til. Skiljiði hvað ég á við? Stundum er erfitt að muna hvernig lífið var áður en þau komu í heiminn.

Núna er ég til dæmis búin að vera að skipta um bleyjur í sex ár samfleytt. Ég á örugglega eftir að verða fyrir einhverskonar áfalli þegar yngsti hættir á bleyju. Svona eins og það myndist hreinlega eitthvað holrúm í lífið. Svo hafa börnin farið hvert á eftir öðru í gegnum “tætingstímabilið” yndislega. Sá yngsti er enn að. Það er semsagt sex ár síðan ég keypti mér síðast eitthvað fallegt fyrir heimilið. En þetta er svakalega flottur hópur og gefur B-manneskjuni hlýja strauma sem hjálpar aðeins til. Og kaffi.

Eftir fyrsta kaffibollann er lífið búið að smella í örlítinn meiri fókus. Finna föt. Bursta tennur. Muna eftir stígvélunum. Hvar eru bleiku sokkarnir? Ég vil fara í þessa peysu, hún er ekki of lítil. Afhverju má ég ekki taka ninja-sverðið með í leikskólann? Mamma, litli bróðir er að hella jógúrtinu á eldhúsborðið. Hvar er úlpan mín? Eru allir með vetlinga? Tækla daginn. Úbbs, gleymdi að greiða mér. Æji skiptir ekki máli.

Oft fer B-manneskjan með ákveðið samviskubit út í daginn. Þegar hún horfir á eftir litlu stubbunum hoppa/hlaupa/rúlla inní leikskólann setur hún sér markmið. Ætlar sér að vera hress á morgun. Á morgun.

Og muna að kaupa kaffi.

Elín Birna, kvikmyndagerðarkona

DEILA