Bar saman fæðuvistfræði regnbogasilungs og villtra laxfiska

Mynd: Olivia Simmons. Mynd fengin af vef Háskólaseturs Vestfjarða.

Fimmtudaginn 26. apríl fór fram afar spennandi meistaraprófsvörn í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Það var hún Olivia Simmons sem varði ritgerð sína en leiðbeinandi hennar er Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Rannsóknin fjallar um mat á fæðuvistfræði regnbogasilungs, sem hefur sloppið úr eldi, í samanburði við villta laxfiska á Vestfjörðum. Úrdráttin má lesa á heimasíðu Háskólasetursins en hann hljómar svo: „Fiskeldi er mikilvæg atvinnugrein á Vestfjörðum og regnbogasilungur hefur verið ein af mikilvægustu tegundunum í sjókvíaeldi. Enn hefur ekki tekist að koma í veg fyrir að eldisfiskur sleppi úr kvíum og er sjókvíaeldi á Vestfjörðum þar engin undantekning. Markmið þessarar rannsóknar var að bera saman fæðuvist regnbogasilungs sem hefur sloppið úr eldi og villtra silunga. Markmiðin með rannsókninni voru fjögur. Að fá grunnmælingar á fæðuvistfræði bleikju og sjóbirtings, að meta skörun í fæðuvist regnboga sem sleppur úr eldi og villtrar bleikju og sjóbirtings, reyna að meta hvort regnbogasilungurinn sem veiðist í náttúrunni eigi sameiginlegan uppruna og leggja fram tillögur um bestu starfshætti við sjókvíaeldið með tilliti til þeirra þátta sem hér eru mældir. Sumarið 2017 voru bleikja og sjóbirtingur veidd í silunganet víða um Vestfirði. Magainnihald fiskanna var greint og stöðugar efnasamsætur mældar í þremur vefjagerðum. Fiskistofa og Hafrannsóknarstofnun lögðu til gögn um magainnihald tegundanna þriggja.“

Að auki segir að niðustöðurnar sýni að það sé mikil skörun á fæðuvist þessara þriggja tegunda og að flestir regnbogasilunganna eigi líklega sameiginlegan uppruna.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

Mynd: Olivia Simmons. Mynd fengin af vef Háskólaseturs Vestfjarða

DEILA