Skaginn3X sýnir á sjávarútvegssýningunni í Brussel

Starfsmenn Skagans3X í Brussel.

Ísfirska fyrirtækið Skaginn3X sýnir þessa dagana á sjávarútvegsýningunni í Brussel. Fyrirtækið framleiðir hátæknilausnir fyrir fiskiðnað á heimsmarkað og því er nauðsynlegt að taka þátt í svona sýningu til að koma nýjum vörum og lausnum á framfæri, sem og hitta væntanlega viðskiptavini og sjá hvað keppinautarnir eru að gera.

BB ræddi við Karl Ásgeirsson, sem stóð vaktina á bás Skagans3X. Helsta nýjung fyrirtækisins er ný gerð af uppþýðingartæki, svokölluð tveggja þrepa lausn (RoteX Thawing). Hugmyndin byggir á mikilli þekkingu fyrirtækisins við ofurkælingu og uppþýðingu, sem byggð hefur verið upp undafarin ár. Í raun er fiskurinn þíddur upp og síðan tryggt að hann skili sér ofurkældur í vinnsluna á því hitastigi sem best hentar tegund og stærð til að hámarka vinnslugæði og nýtingu.

Ein nýjung fyrirtækisins eru tvær lausnir í einu tæki; bæði uppþýðing og ofurkæling. Í raun er uppþýðingu snúið við og sami búnaður notaðar til að ofurkæla fisk sem gefur bestu niðurstöðu við vinnslu. Þetta tæki hentar minni vinnslum vel sem geta þannig minnkað fjárfestingu með því að nýta tækið til að þíða upp eða kæla.

Á sýningunni kynnir fyrirtækið nýja aðferð við þrif á rörum „Clean in Place“ (CIP), sem er ný lausn á þrifum á rörum, sem mikið eru notuð við flutning á hráefni eða afurðum milli vinnslusvæða.

Fyrirtækið hefur áratuga reynslu í smíði á spíraldælum, en hefur nú þróað nýjar lausnir með notkun þeirra. Háefni sem dælt er með spíraldælu milli vinnslusvæða er nú kælt á meðan á flutningi stendur og tíminn þannig nýttur til fulls. Einnig er hægt að nota dælinguna til að marinera vöruna.

Skaginn3X er leiðandi fyrirtæki í heiminum í lausnum á hátækni frystihúsum fyrir uppsjávarfisk. Á Brussel sýningunni kynnir það nýja lausn við frystingu á uppsjávarfiski, þar sem nýting á vörubrettum er hámarkað, en mikið magn er unnið í þessum vinnslustöðvum og því skiptir pláss við flutning miklu máli.

Þessa dagana er verið að vinna á fullu í verksmiðju fyrirtækisins við Sindragötu við smíði á búnaði fyrir Pál Pálsson ÍS 102, sem er væntanlegur til heimabæjar síns, Hnífsdals, næstu dagana. Páll er þessa stundina staddur á Möltu og verður ferðinni haldið á í gegnum Gíbraltarsund út í Atlandshafið á leið til Ísafjarðar.

Gunnar

DEILA