Uppreisn og upprisa

Í kyrrðinni á páskum, í logni sem er engu líkt, rétt áður en fjölskyldumeðlimir týnast fram úr rúminu einn af öðrum og nudda stýrurnar úr augunum, hugsar ritstjóri til þess að á sama tíma fyrir um 2000 árum hafi María Magdalena komið að gröf Jesú. Þar ætlaði hún að smyrja líkama Jesú frá Nasaret en sá þá að hann var upprisinn. Upprisa þessi er einmitt megininntak páskanna. Hvort sem við trúum á þennan margumrædda Jesú statt og stöðugt, bara þegar við erum í vanda stödd eða finnst þessi saga í besta falli ágætis skáldsaga, þá verður ekki um það deilt að upprisan er eitt mikilvægasta stef í menningu okkar. Upprisan birtist okkur út um allt, í listum og lífinu sjálfu.

Á þessum páskum er ein upprisa sem tekur stórt pláss í huga ritstjóra. Upprisan sem er megininntak Vestfjarða. Upprisa Vestfjarða. Frá því fyrir um þremur vikum, þegar ritstjóri tók að sér það mikla verkefni að ritstýra BB, hefur upprisunni skotið upp furðu oft. Skotið upp kollinum í ýmsum aðstæðum, í samtali við fólk og við vinnu þessa fréttamiðils, sem á sér langa sögu, en á nú að rísa upp að nýju, með nýjum áherslum og nýjum verkefnum. Með bjartsýni og jákvæðni að leiðarljósi er BB ætlað að taka þátt í mikilvægri upprisu. Upprisu Vestfjarða, fjórðungs, sem hefur lengi átt undir högg að sækja. En nú eru blikur í lofti. Vestfirðir eru upprisnir.

Í huga ritstjóra hefur BB mikilvægt hlutverk þegar kemur að Vestfjörðum. Okkar áhersla eru Vestfirðir, fólkið og stórbrotin náttúran sem við erum svo einstaklega heppin að byggja. BB verður héraðsmiðill, og hlutverk héraðsmiðils er ótvírætt. Það er á okkar ábyrgð að koma Vestfjörðum að í umræðu landsins. Koma okkar málefnum, sem stundum virðast mega sín lítils þegar mál landsins eru tekin fyrir. Við þurfum pláss, það er komið að okkur, nú munu Vestfirðingar ekki bíða lengur eftir að fjórðungurinn verði partur af heildinni. Við verðum heildin. Vestfirðir væru vissulega ekki til ef ekki væri fyrir fólkið sem byggir landið. Landið sem er okkar í logni og stormi. BB verður dægurmiðill fólksins, fjallar um fólkið okkar, menninguna okkar, líf okkar. Við erum litrík, fjölbreytt, fréttnæm. Síðast en ekki síst verður BB uppreisnarmiðill. Upprisinn miðill um upprisna Vestfirði. Þátttakandi í upprisu Vestfjarða, uppreisn Vestfjarða.

Það er því á þessum páskum að upprisa Vestfjarða er mér ofarlega í huga. Jákvæðnin og bjartsýnin liggur í loftinu, við finnum lyktina af vori og sjáum fyrir okkur blómlega tíð, með tækifærum og fólki og menningu. Það liggur í loftinu að Vestfirðir eru í uppreisn gegn þeim örlögum sem hafa einhvern veginn spunnið örlagavef sinn utanum fjórðunginn síðustu áratugi. Nú er ný tíð og Vestfirðir fá vængi og rödd. Upprisinn fjórðungur. Fjórðungur sem verður hluti af heildinni og fær vægi í umræðu landsins. Þegar rætt er um uppreisn á ritstjóri ekki bara við atvinnuuppbyggingu, þar sem við sjáum fyrir okkur karla með skóflur, heldur óléttar konur, börn á hlaupum og fjölbreytt samfélag, fullt af allskonar. Líf.

Í upprisnu heilbrigðu samfélagi er fjölmiðill. Fjölmiðill sem talar máli samfélagsins, segir sanna sögu fjórðungs. Upprisins samfélags.

Gleðilega páska.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA