Between Mountains bjartasta von Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018

Vestfirska hljómsveitin Between Mountains hlaut titilinn bjartasta von Íslensku tónlistarverðlaunanna 2018, sem haldin voru hátíðlega í Hörpu í kvöld.

Bjartasta vonin var tilnefnd af starfsfólki Rásar 2, og fór kosningin fram á vef Rásar 2. Í ár voru 5 flytjendur tilnefndir, Hatari, Birgir Steinn, Birnir, GDRN, ásamt Between Mountains.

Hljómsveitina skipa tvær ungar stúlkur, þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir, en það má með sanni segja að ferill þeirra hafi farið á flug í kjölfar sigurs þeirra í Músíktilraunum 2017. Katla og Ásrós stunda báðar nám við Tónís og MÍ og eru báðar þátttakendur í hinu  frábæra samstarfsverkefni Tónís og MÍ, Konungi Ljónanna, sem sýnt er nú um mundir.

Við óskum Kötlu Vigdísi og Ásrósu Helgu hjartanlega til hamingju með titilinn bjartasta von íslenskrar tónlistar 2018.

-Margrét Lilja

DEILA