„Röksemdafærsla sem heldur ekki vatni“

Pétur G. Markan.

Að mati Péturs G. Markan, formanns Fjórðungssambands Vestfirðinga, heldur röksemdafærsla Sigurðar Guðjónssonar, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, ekki vatni. Starfs sviðsstjóra fiskeldis hjá Hafrannsóknastofunar verður ekki flutt til Ísafjarðar líkt og ákveðið var haustið 2016. Sigurður sagði í samtali við bb.is fyrir helgi að ákvörðun þáverandi sjávarútvegsráðherra hafi verið sérstök að því leyti að henni hafi ekki fylgt fjármagn.

„Hann segir að stöðunni hafi ekki fylgt fjármagn en það var til fjármagn í stöðuna í Reykjavík. Staðan kostar ekki meira á Ísafirði en í Reykjavík. Þetta er röksemdafærsla sem heldur ekki vatni hjá forstjóranum,“ segir Pétur.

Hann segir einnig að það hljóti að vera faglegra fyrir Hafrannsóknastofnunar að rannsóknir tengdar fiskeldi verði þar sem fiskeldi er fyrst og fremst stundað, það er að segja á Vestfjörðum. „Annað er afsláttur á fagmennsku. Og þessi stjórnsýsla forstjóra Hafrannsóknastofnunar er sömuleiðis afsláttur á fagmennsku. Það er krafa að menn standi við orðin og staðan verði staðsett fyrir vestan og hér verði byggt upp öflugt fiskeldissvið stofnunarinnar.“

Pétur segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að ákvörðunin árið 2016 um að sviðsstjórastaðan flyttist til Ísafjarðar árið 2018 hafi ekki verið einhliða ákvörðun þáverandi sjávarútvegsráðherra, heldur sameiginleg niðurstaða Hafrannsóknastofnunar og ráðuneytisins. „Þannig að hann er ekki bara að taka ranga ákvörðun heldur er verið að svíkja samkomulag,“ segir Pétur.

DEILA